Austurríkismaður efstur eftir fyrsta hringinn

Sepp Straka kom á óvart á fyrsta degi í Tókýó …
Sepp Straka kom á óvart á fyrsta degi í Tókýó og er með forystuna. AFP

Sepp Straka frá Austurríki er með forystu eftir fyrsta hringinn í golfkeppni karla á Ólympíuleikunum í Tókýó en hann lék mjög vel í dag og lauk hringnum á 63 höggum, átta undir pari vallarins.

Straka er 28 ára gamall og situr í 161. sæti heimslistans í karlaflokki en hann er á sínu þriðja ári á bandarísku PGA-mótaröðinni.

Jazz Janewattananond frá Taílandi, sem er í 150. sæti heimslistans, kemur fast á hæla honum á 64 höggum og síðan koma Thomas Pieters frá Belgíu og Carlos Ortiz frá Mexíkó á 65 höggum.

Bandarísku keppendurnir eru meðal þeirra þekktustu í hópi 60 keppenda. Xander Schauffele og Patrick Reed deila 12. sætinu á 68 höggum, Collin Morikawa deilir 20. sætinu á 69 höggum og Justin Thomas deilir 41. sætinu á 71 höggi, pari vallarins. Morikawa er þriðji á heimslistanum, Thomas fjórði og Schauffele fimmti.

Rory McIlroy frá Norður-Írlandi er meðal þeirra sem deila 20. sætinu á 69 höggum og Norðmaðurinn Viktor Hovland sem nú er ellefti á heimslistanum er á 68 höggum. Paul Casey frá Bretlandi er á 67 höggum og Japaninn Hideki Matsuyama er á 69 höggum en þessir eru allir í fremstu röð kylfinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert