McGregor rotaður í fyrsta sinn

Conor McGregor.
Conor McGregor. AFP

Írski bardagakappinn Conor McGregor sneri aftur í búrið í UFC-keppninni í blönduðum bardagalistum þegar hann mætti Bandaríkjamanninum Dustin Poirier í léttvigt í nótt. Poirier hafði betur með tæknilegu rothöggi í annarri lotu og er þetta í fyrsta sinn sem McGregor er rotaður í UFC.

Poirier átti harma að hefna gegn McGregor í nótt en þeir mættust fyrst í UFC í september árið 2014, þegar Írinn rotaði Poirier.

McGregor hefur lítið keppt í UFC undanfarin ár. Hann vann Donald Cerrone í janúar á síðasta ári og á undan því tapaði hann gegn Khabib Nurmagomedov í titilbardaganum um léttvigtartitilinn í október árið 2018.

Að loknum bardaganum í nótt sagðist McGregor svekktur með frammistöðu sína og að hann myndi vilja berjast aftur sem fyrst. Sagðist hann hafa barist of lítið síðustu ár og það væri erfitt að vera upp á sitt besta þegar langt væri á milli bardaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert