Conor handtekinn fyrir meint kynferðisbrot

Conor McGregor hefur verið handtekinn oftar en einu sinni á …
Conor McGregor hefur verið handtekinn oftar en einu sinni á þessu ári. AFP

Aðeins nokkrum klukkutímum eftir að Conor McGregor tilkynnti á Twitter að hann væri hættur í MMA, birti bandaríska dagblaðið New York Times  grein þess efnis að hann væri í rannsókn lögreglu fyrir meint kynferðisbrot. 

Að sögn Times var McGregor handtekinn í Dublin í janúar, eftir að kona sakaði hann um kynferðislega áreitni í desember. Ekki er búið að ákæra McGregor en rannsókn málsins stendur yfir. 

Konan sakar McGregor um áreitnina á Beacon-hótelinu, sem er í 25 mínútna akstursfjarlægð frá Crumlin, þar sem McGregor ólst upp. Karen Kessler, talsmaður McGregor, segir Írann ekki hafa hætt vegna málsins. 

„Þessi saga er búin að vera á kreiki í einhvern tíma, en það er óljóst hvers vegna fréttin var birt núna. Vangaveltur um að Conor hafi hætt vegna málsins er fjarri sannleikanum. Conor berst ekki fyrr en hann fær þá virðingu sem hann á skilið,“ sagði Kessler. 

McGregor var gestur í spjallþætti Jimmy Fallon í gær og var ekkert sem benti til þess að hann myndi hætta daginn eftir. McGregor barðist síðast í október, er hann tapaði fyrir Khabib Nurmagomedov. 

Hann hefur komist í kast við lögin í gegnum tíðina. Hann var handtekinn fyrr í þessum mánuði í Flórída fyrir að stela síma af aðdáanda og tók hann þátt í hópslagsmálum í New York í apríl á síðasta ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert