Sigurkarfa á lokasekúndunum

Norbertas Giga tryggði Haukum dýrmætan sigur í kvöld.
Norbertas Giga tryggði Haukum dýrmætan sigur í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Norbertas Giga reyndist hetja Hauka þegar liðið vann dramatískan sigur gegn Stjörnunni í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Ásgarði í Garðabæ í 9. umferð deildarinnar í kvöld.

Giga tryggði Hafnfirðingum sigur með tveggja stiga körfu þegar fjórar sekúndur voru til leiksloka en leiknum lauk með 77:76-sigri Hauka.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og leiddu Haukar með einu stigi í hálfleik, 42:41. Haukar voru fimm stigum yfir eftir þriðja leikhluta, 64:59 en Stjarnan komst yfir, 72:70, þegar fjórar mínútur voru til leiksloka.

Liðin skiptust á að skora eftir þetta og Robert Turner kom Garðbæingum yfir, 76:75, með tveggja stiga körfu þegar mínúta var eftir af leiknum. Það var svo Giga sem skoraði sigurkörfuna og Haukar fögnuðu sigri.

Darwin Davis skoraði 15 stig fyrir Hauka og Giga skoraði 14 stig og tók tólf fráköst. Robert Turner var stigahæstur hjá Stjörnunni með 19 stig, sjö fráköst og þrjár stoðsendingar.

Haukar eru með 12 stig í þriðja sæti deildarinnar en Stjarnan er í því sjöunda með 8 stig.

Gangur leiksins:: 6:8, 9:15, 18:21, 21:23, 21:33, 26:36, 35:41, 41:42, 43:52, 43:56, 49:58, 59:64, 66:69, 70:70, 74:73, 76:77.

Stjarnan: Robert Eugene Turner III 19/7 fráköst, Julius Jucikas 17/7 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 15/8 fráköst, Adama Kasper Darbo 11/6 fráköst/6 stoðsendingar, Kristján Fannar Ingólfsson 6, Friðrik Anton Jónsson 3, Arnþór Freyr Guðmundsson 3, Júlíus Orri Ágústsson 2.

Fráköst: 28 í vörn, 10 í sókn.

Haukar: Darwin Davis Jr. 15, Daniel Mortensen 14/5 stolnir, Norbertas Giga 14/12 fráköst, Orri Gunnarsson 13/11 fráköst, Emil Barja 9/4 fráköst, Hilmar Smári Henningsson 9/5 fráköst/8 stoðsendingar, Alex Rafn Guðlaugsson 3.

Fráköst: 22 í vörn, 17 í sókn.

Dómarar: Ísak Ernir Kristinsson, Stefán Kristinsson, Bjarni Rúnar Lárusson.

Áhorfendur: 88

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert