Nýliðarnir heimsækja toppliðið

Halldór Garðar Hermannsson og félagar í Keflavík eru í toppsætinu.
Halldór Garðar Hermannsson og félagar í Keflavík eru í toppsætinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjórir leikir eru á dagskrá í níundu umferð Subway-deildar karla í körfubolta í kvöld. Valur og Keflavík, tvö af þremur efstu liðunum, mæta liðum í neðri hlutanum og geta náð tveggja stiga forskot á Breiðablik á toppnum.

Keflavík mætir Hetti frá Egilsstöðum á heimavelli. Höttur hefur tapað þremur leikjum í röð, eftir gott gengi þar á undan, á meðan Keflavík hefur unnið tvo í röð, eftir tvö töp í þremur leikjum þar á undan.

Valur fékk skell á móti Keflavík í síðustu umferð, eftir sex sigra í röð. Íslandsmeistararnir freista þess að komast aftur á sigurbraut er þeir heimsækja ÍR í Breiðholtið. ÍR hafði betur gegn KR í síðustu umferð í miklum fallslag og er nú fjórum stigum fyrir ofan fallsæti, eins og Höttur.

Botnlið Þórs frá Þorlákshöfn heimsækir Tindastól í Skagafjörðinn. Þór er aðeins með tvö stig á meðan Tindastóll er í sjötta sæti með átta stig og í baráttu um sæti í úrslitakeppninni.

Loks mætast grannarnir Stjarnan og Haukar í Garðabænum. Nýliðar Hauka hafa gert góða hluti í efstu deild og er liðið í fimmta sæti með tíu stig. Stjarnan er í sjöunda sæti með átta.

Dagskrá Subway-deildar karla í körfubolta í kvöld:
18:15 ÍR – Valur
19:15 Keflavík – Höttur
19:15 Tindastóll – Þór Þorlákshöfn
20:15 Stjarnan – Haukar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert