„Mér líður vel á Ásvöllum“

Tryggvi Snær Hlinason bíður spenntur eftir leiknum við Hollendinga á …
Tryggvi Snær Hlinason bíður spenntur eftir leiknum við Hollendinga á föstudagskvöldið. mbl.is/Árni Sæberg

Bóndasonurinn úr Bárðardal, Tryggvi Snær Hlinason, er á fullu í undirbúningi með íslenska karlalandsliðinu í körfubolta fyrir síðasta leikinn í fyrri hluta undankeppni HM 2023, en hann er gegn Hollendingum á Ásvöllum á föstudagskvöldið.

Æfingahópurinn fór úr 26 manns í 16 á mánudag og Tryggvi sagði við Morgunblaðið fyrir æfingu liðsins á Ásvöllum á mánudaginn að það hefði verið stórfínt að vera með svona stóran hóp.

,,Það eru allir tilbúnir að gera það sem þarf að gera til þess að vinna, fórnfýsin er ótrúleg og sama hvað er í gangi þá eru menn alltaf tilbúnir að gera það sem þarf. Allir eru í mjög góðu formi og líta vel út og það er gaman að sjá framtíðarleikmennina,“ sagði Tryggvi.

Gott að hafa lengri tíma

Landsliðið kom síðast saman í febrúar fyrir leikina á móti Ítalíu og fékk liðið ekki jafn langan tíma til að æfa og nú.

,,Það er gaman að vera komnir aftur og hafa svona langan tíma. Upp á síðkastið hefur þetta verið þannig að það eru bara örfáar æfingar og síðan strax í leik en núna fengum við aðeins lengri tíma til að slípa okkur betur saman og fá nýjar hugmyndir og halda áfram að bæta okkur sem lið. Svo er alltaf gaman að koma aftur í vinahópinn og sjá karlana,“ sagði Tryggvi, sem hefur verið lykilleikmaður í íslenska hópnum undanfarin ár.

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert