Körfuboltinn verður á fleygiferð um jólin

Þór á Akureyri og Keflavík mættust í síðasta leiknum fyrir …
Þór á Akureyri og Keflavík mættust í síðasta leiknum fyrir kórónuveiruhléið þann 6. október. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Körfuknattleikssamband Íslands hefur tilkynnt um útgáfu á nýju keppnisdagatali fyrir Íslandsmótið í meistaraflokkum karla og kvenna, ásamt breyttu fyrirkomulagi í bikarkeppninni. 

Meðal þess sem þar kemur fram er að leikmenn í úrvalsdeild karla, Dominos-deildinni, verða ekki í jólafríi heldur verða spilaðar fjórar umferðir í deildinni um jól og áramót. Fyrirhugað er að leikdagar verði 20. desember, 23. desember, 27. desember og 3. janúar. Þá verður leikið í bikarkeppni karla og kvenna um jólin.

Í nýju keppnisdagatali er svigrúm  til að leika þá leiki sem fresta þarf vegna sóttkvíar eða einangrunar leikmannahópa.

Bikarkeppni karla hefur verið breytt á þann hátt að 32ja liða úrslit hafa verið felld niður og aðeins lið úr úrvalsdeild og 1. deild taka þátt. Lið úrvalsdeildar, tólf talsins, fara beint í 16-liða úrslit en lið 1. deildar leika um fjögur sæti þar á meðan landsleikjahlé stendur yfir í nóvember.

Átta liða úrslit í bikarkeppni kvenna verða síðan leikin 27. desember og átta liða úrslit karla 30. desember.

Í tilkynningu frá KKÍ segir að gefnar hafi verið út ítarlegar leiðbeiningar um hvernig keppnistímabilið verði endurræst í efstu deildum karla og kvenna eftir stopp vegna sóttvarnaráðstafana yfirvalda.

Þegar keppnistímabilið var stöðvað snemma í þessum mánuði hafði verið leikin ein umferð í Dominos-deild karla og tæpar þrjár umferðir í Dominos-deild kvenna. Samkvæmt mótaskrá hefði keppni átt að halda áfram 5. nóvember en KKÍ segir í leiðbeiningum sínum að gefið verði meira svigrúm fyrir liðin til að búa sig undir keppni á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert