Fimm fráköst og flautukarfa

Tryggvi í leik með Zaragoza í mars.
Tryggvi í leik með Zaragoza í mars. Ljósmynd/FIBA

Tryggvi Snær Hlinason og félagar í Zaragoza unnu magnaðan útisigur þegar liðið heimsótti Lublin til Póllands í Meistaradeildinni í körfuknattleik í dag.

Leiknum lauk með eins stigs sigri Zaragoza, 86:85, en ásamt því að taka fimm fráköst gaf Tryggvi eina stoðsendingu í leiknum.

Mikið jafnfræði var með liðunum allan leikinn og þegar sjö sekúndur voru til leiksloka leiddi Lubin með tveimur stigum, 85:83.

D. J. Seeley, leikmaður Zaragoza, skoraði hins vegar þriggja stiga körfu á lokasekúndum leiksins og tryggði þannig sigurinn.

Þetta var fyrsti leikur riðlakeppninnar og er Zaragoza með 2 stig á toppi D-riðils en Szombathely og Nizhny Novgrorod leika einnig í riðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert