Dýrmætur stórsigur Íslands

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik er á góðri leið með að vinna sinn riðil í forkeppninni fyrir EM 2021 eftir stórsigur á Portúgal 96:68 í Laugardalshöllinni í dag. Liðið sem vinnur riðilinn fer í undankeppni sem hefst í vetur.

Ísland má tapa síðasta leiknum í Sviss en vinnur samt riðilinn. Svo framarlega sem Sviss vinni með hóflegum mun. Þá yrðu allar þjóðirnar þrjár með jafn mörg stig. Þá gildir hvert þeirra er með flest stig í plús og eftir þennan frábæra sigur stendur Ísland best að vígi. Portúgal vann Sviss stórt um daginn og því standa Svisslendingar illa. Vinni Ísland leikinn í Sviss þá vinnur Ísland einfaldlega riðilinn á stigum og þá þarf ekki að velta hinu fyrir sér.

Í undankeppninni sem fram fer næstu tvo vetur bíða sterkar þjóðir. Serbía sem teflir iðulega fram einu besta liði í Evrópu, Finnland sem við höfum mætt þrívegis á síðustu árum og Georgía. Þrjú lið komast á EM 2021 og er Georgía örugg um sæti þar sem hún er ein gestgjafaþjóðin.

Jón Axel Guðmundsson var atkvæðamestur í íslenska liðinu með 22 stig en hann setti niður fimm þriggja stiga körfur. Hinn aldni höfðingi Hlynur Bæringsson skoraði 21 stig en framlag hans í riðlinum hefur verið mikilvægt en hann lét tilleiðast að taka fram landsliðsbúninginn á ný eftir fimm símhringingar. Martin Hermannsson skoraði 19 stig og Elvar Már Friðriksson 10. Þá átti Pavel Ermolinskij mjög góðan leik í vörn og sókn. Tók 11 fráköst, gaf 8 stoðsendingar og skoraði 8 stig. 

Ísland vann stærri sigur nú en í febrúar þegar Ísland vann Portúgal með tuttugu og fjögurra stiga mun í síðasta landsleik Jóns Arnórs Stefánssonar. Þá gat Ísland teflt fram sínu sterkasta liði en nu eru forföll í hópnum því Haukur Helgi Pálsson, Kristófer Acox og Kári Jónsson geta ekki verið með í forkeppninni. 

Lið Íslands: Martin Hermannsson, Ægir Þór Steinarsson, Gunnar Ólafsson, Jón Axel Guðmundsson, Hlynur Bæringsson, Frank Aron Booker, Elvar Már Friðriksson, Hörður Axel Vilhjálmsson, Pavel Ermolinskij, Ólafur Ólafsson, Hjálmar Stefánsson, Tryggvi Snær Hlinason. 
Ísland 96:68 Portúgal opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert