Leikmenn fórna fyrir heildarmyndina

Arnar faðmar Ægi Þór Steinarsson að sér þegar úrslitin lágu …
Arnar faðmar Ægi Þór Steinarsson að sér þegar úrslitin lágu fyrir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í körfuknattleik, var hógvær þegar mbl.is ræddi við hann eftir að Arnar hafði landað sínum fyrsta stóra titli sem þjálfari á Íslandi en áður starfaði hann í Danmörku um nokkura ára skeið. 

„Vörnin var góð hjá okkur á heildina litið þótt við höfum lent í vandræðum í þriðja leikhluta. Njarðvíkingar eru hrikalega sterkir. Okkur tókst að hægja á þeim en lentum um tíma í bullandi vandræðum með Eric Katenda. Við náðum að leysa það þegar leið á. Ég verð að hrósa Njarðvíkingum því þeir eru hörkulið.“

Stjarnan hefur nú unnið fjórtán leiki í röð í deild og bikar. Liðið er virkilega sannfærandi um þessar mundir. Hverju þakkar Arnar þessa sigurgöngu?

 „Við erum oftast nær sterkir í vörn. Dýptin í leikmannahópnum er til staðar. Ég held að aðalástæða þess að okkur hefur gengið vel upp á síðkastið er sú að leikmenn eru til í að fórna einhverju fyrir heildarmyndina. Ég hef ekki verið í kringum hóp manna sem auðveldara hefur verið að vinna með fyrir utan íslenska landsliðið í kringum EM 2015. Menn eru með markmið og eru tilbúnir til að gera það sem liðið þarf. Slíkt er ekki alltaf auðvelt og ég hrósa leikmönnum mínum fyrir það,“ sagði Arnar Guðjónsson þegar mbl.is spjallaði við hann í Laugardalshöllinni í gær. 

Arnar Guðjónsson fer yfir sviðið í bikarúrslitaleiknum í gær.
Arnar Guðjónsson fer yfir sviðið í bikarúrslitaleiknum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert