Frank Booker gengur vel í Frakklandi

Frank Aron Booker jr. í leik í NCAA:
Frank Aron Booker jr. í leik í NCAA: Ljósmynd/karfan.is

Bandaríski körfuknattleiksmaðurinn Franc Booker rataði í fréttirnar í vikunni þegar Brynjar Þór Björnsson sló met hans yfir flestar þriggja stiga körfur í einum leik í efstu deild Íslandsmótins. Sonur kappans, sem er íslenskur ríkisborgari, er orðinn atvinnumaður í íþróttinni. 

Frank Aron Booker jr. er fæddur árið 1994 og á íslenska móður. Hann lék með nokkuð sterku liði Oklahoma í bandaríska háskólakörfuboltanum, NCAA. Komst hann í úrslitakeppni NCAA árið 2015, fyrstur íslenskra karla. 

Síðasta sumar gerðist Frank Aron atvinnumaður og gekk til liðs við franska B-deildarliðið Evreux. Í þessari sömu deild voru Kristófer Acox og Elvar Már Friðriksson í upphafi tímabilsins. Þar hóf Martin Hermannsson feril sinn í atvinnumennsku og Haukur Helgi Pálsson var í deildinni fyrir tveimur árum síðan. 

Frank Aron Booker jr er bakvörður og fer nokkuð vel af stað í Frakklandi. Í fyrstu átta leikjunum hefur hann spilað liðlega 21 mínútu í leik og skorað tæplega 9 stig að meðaltali. 

Frank Aron hefur ekki leikið A-landsleik fyrir Ísland en hefur verið valinn í æfingahóp landsliðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert