Vona að menn séu ekki sprungnir

Pétur Ingvarsson, þjálfari Blika, á hliðarlínunni í kvöld.
Pétur Ingvarsson, þjálfari Blika, á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Hari

 „ÍR-ingarnir eru erfiðir heim að sækja og við náðum ekki að klára þennan leik eins og ég hafði vonast til að við myndum gera,“ sagði Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 92:82-tap liðsins gegn ÍR í 3. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik í Seljaskóla í kvöld.

„Við þurfum að skora meira, ef við ætlum okkur sigur í svona leikjum, og það tókst ekki hjá okkur í kvöld. Þessi leikur súmmerar aðeins upp tímabilið hjá okkur hingað til. Við erum búnir að vera yfir mesta allan tímann í öllum þremur leikjunum sem við höfum spilað en svo glutrum við því niður undir lokin. Það eru þrír leikir búnir af tímabilinu og ég ætla rétt að vona að menn séu ekki sprungnir en ef það þarf að koma strákunum í betra form þá er það lítið mál.“

Pétur viðurkennir að kannski þurfi hann að endurhugsa leikskipulag sitt upp á nýtt en hann hefur verið duglegur að hreyfa við liðinu sínu í fyrstu þremur leikjum tímabilsins.

Leikmenn Breiðabliks voru í miklum vandræðum með Sigurð Þorsteinsson í …
Leikmenn Breiðabliks voru í miklum vandræðum með Sigurð Þorsteinsson í Seljaskóla í kvöld. mbl.is/Hari

Þurfum að skora 100 stig

„Ég er með gott lið í höndunum en það er ekki mikil reynsla í liðinu og við þurfum að vera tilbúnari í þessa erfiðu og jöfnu leiki. Ég er duglegur að hreyfa við liðinu og það fer mikil orka í leikina okkar og kannski þarf ég að skoða það betur hjá mér, hvort ég þurfi að endurhugsa mitt leikskipulag en vonandi fer þetta að detta með okkur.“

Pétur vonast til þess að það sé stutt í fyrsta sigurleikinn og hann telur að sínir menn þurfi að skora í kringum 100 stig til þess að skila fyrsta sigrinum í hús.

„Við þurfum að skora í kringum 100 stig til þess að vinna leiki. Við þurfum að skora meira en við höfum verið að gera og þá tel ég að hlutirnir fari að falla með okkur,“ sagði Pétur Ingvarsson í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert