Stjarnan með besta lið landsins

Finnur Jónsson
Finnur Jónsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjarnan hafði betur gegn Skallagrími, 82:72, er liðin mættust í 3. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í Garðabænum í kvöld. Finnur Jónsson, þjálfari Skallagríms, var svekktur með spilamennsku sinna í þriðja leikhlutanum, þar sem Stjarnan keyrði yfir hans lærisveina. 

„Það er svekkjandi en við vitum að leikurinn er í fjóra leikhluta og við verðum að draga lærdóm af þessu. Þeir komu gríðarlega öflugir í þriðja leikhlutann og börðu okkur úr okkur aðgerðum og hægðu á okkur og því fór sem fór."

Hann segir sína menn geta gert ýmislegt betur, en bætir við að Stjarnan sé með besta lið landsins. 

„Það er ýmislegt. Við hefðum getað verið fastari fyrir í vörninni og keyra upp hraðan í sókninni eins og við viljum. Þeir náðu hins vegar að hægja á okkur. Stjarnan er með besta lið á landinu og á heimavelli þeirra er það gott lið."

Skallagrímur er með einn sigur og tvö töp til þessa en töpin komu gegn KR og Stjörnunni á tveimur af erfiðustu útivöllum landsins. 

„Heilt yfir er þetta mjög fínt en við getum áfram bætt okkur og við reynum að gera það dag frá degi. Ég er stoltur af þessum strákum," sagði Finnur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert