Möguleikar Íslands góðir

Ljósmynd/FIBA

Íslenska landsliðið í körfu­bolta skipað leik­mönn­um 16 ára og yngri vann 79:69-sigur á Búlgaríu í fjórða leik sínum í B-deild Evr­ópu­móts­ins sem fram fer í Saraj­evó í Bosn­íu. Íslensku strákarnir eiga góða möguleika á að komast í 8-liða úrslitin.

Leikurinn var hreinlega stál í stál framan af en fyrstu tveir leikhlutarnir voru báðir hnífjafnir og staðan í hálfleik jöfn, 33:33. Í þeim síðari tókst svo íslensku strákunum að slíta sig frá liði Búlgaríu og vinna að lokum góðan sigur. Marinó Pálmason var stigahæstur í liðinu með 21 stig en þar að auki náði hann fjórum fráköstum og átti þrjár stoðsendingar.

Ástþór Svalason skoraði 14 stig og þá var Hugi Hallgrímsson gríðarlega öflugur í kvöld, átti 13 fráköst, þar af tíu í vörninni.

Ísland er nú búið að vinna þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum og er í öðru sæti C-riðils þegar einn leikur er eftir, gegn Kýpur á morgun. Tvö efstu lið riðilsins fara áfram í 8-liða úrslit. Efstu þrjú lið B-deildarinnar keppa í A-deildinni á næsta móti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert