Tryggvi var ekki valinn

Tryggvi Snær Hlinason.
Tryggvi Snær Hlinason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmiðherji í körfuknattleik, var ekki einn þeirra sextíu sem valdir voru í nýliðavalinu fyrir NBA-deildina í nótt. 

Tryggvi er svo sem ekki illa staddur þar sem hann er hjá Valencia einu besta liði Spánar en tilkynnti í vor að hann myndi gefa kost á sér í nýliðavalinu. 

Flestir fjölmiðlar í Bandaríkjunum spáðu því að Tryggvi yrði valinn í 2. umferð valsins en svo fór þó ekki en nýliðavalið í bandarísku íþróttunum getur verið óútreiknanlegt. 

Tryggvi ferðaðist um Bandaríkin síðustu vikurnar og æfði með nokkrum NBA-liðum sem vildu skoða hann og ljóst að síðustu vikur hafa verið góð auglýsing fyrir Tryggva í körfuboltaheiminum. 

Tveir Evrópubúar sem mættu Íslandi á EM í Finnlandi í fyrra voru valdir. Annars vegar slóvenski Evrópumeistarinn Luka Doncic sem var valinn þriðji af Atlanta en var skipt strax til Dallas og mun því leika í Texas næsta vetur. Hins vegar Grikkinn Kostas Antetokounmpo var valinn númer sextíu af Philadelphia og var því sá síðasti sem var valinn. Antetokounmpo var áberandi í Euroleague í vetur með Panathinaikos. Hann á bróður í Milwaukee sem hefur slegið í gegn og er kallaður „gríska undrið“. 

Luka Doncic í leik á móti Íslandi á EM í …
Luka Doncic í leik á móti Íslandi á EM í Finnlandi. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert