Færir Tryggvi sig til Colorado?

Tryggvi Snær Hlinason og Jón Arnór Stefánsson, sem var einn …
Tryggvi Snær Hlinason og Jón Arnór Stefánsson, sem var einn vetur á mála hjá Dallas Mavericks. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmiðherji í körfuknattleik, er kominn til New York í Bandaríkjunum ásamt fríðu föruneyti til að vera viðstaddur nýliðavalið í NBA-deildinni. Talsverðar líkur eru taldar vera á því að Tryggvi verði valinn, en hann lýsti því yfir í vor að hann myndi gefa kost á sér.

Ýmsir sérfræðingar, til dæmis hjá ESPN og Bleacher Report, slá því nánast föstu að Tryggvi verði valinn í 2. umferð valsins. Ekki er þó einfalt að spá fyrir um slíkt. Um leið og eitt félag kemur á óvart með ákvörðun sinni getur farið af stað atburðarás þar sem félögin þurfa að breyta fyrirhuguðum áætlunum sínum, út frá því hvað er í boði þegar kemur að þeim að velja.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur Denver Nuggets talsverðan áhuga á Tryggva og geta forráðamenn félagsins hugsað sér að velja hann í 2. umferð. Þeir eru hins vegar ekki vissir um að þá verði Tryggvi enn í boði þegar að þeim kemur. Denver-menn eiga 14. valrétt og nýta hann væntanlega í leikmann sem þeir eru öruggari um að sé tilbúinn í NBA, en annar valréttur þeirra er númer 43.

Í bandaríska körfuboltanum skilar gríðarlegur fjöldi frambærilegra leikmanna sér úr háskólunum á hverju ári, en þar er spilaður körfubolti í mjög háum gæðaflokki. Leikmenn sem koma úr háskólum og gerast atvinnumenn í NBA, Evrópu og S-Ameríku skipta hundruðum á hverju einasta ári. Þar að auki geta sterkir leikmenn utan Bandaríkjanna verið í boði. Þar má til dæmis nefna Luka Doncic, sem er Evrópumeistari bæði með Slóveníu og Real Madrid.

Sjá fréttaskýringuna í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert