„Ekki sjálfgefið að ég verði valinn“

Tryggvi Snær Hlinason er skráður til leiks í nýliðavali NBA-deildarinnar …
Tryggvi Snær Hlinason er skráður til leiks í nýliðavali NBA-deildarinnar í körfuknattleik. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýliðaval NBA-deildarinnar í körfuknattleik fer fram í kvöld í New York en Tryggvi Snær Hlinason, leikmaður Valencia á Spáni, er í valinu í ár. Það hefur verið vera mikil keyrsla á Tryggva að undanförnu en hann er búinn að heimsækja sex borgir í Bandaríkjunum til að sýna sig fyrir NBA-liðum. Tryggvi kom til New York í gærkvöldi en hafði þá verið að æfa hjá Oklahoma City Thunders fyrr um daginn.

„Ég er mjög spenntur fyrir kvöldinu og stoltur af tækifærinu sem er ég búinn að fá að undanförnu,“ sagði Tryggvi. Ris hans í körfuboltaheiminum hefur verið mjög hratt en hann er afar jarðbundinn og hógvær. „Þó að ég hafi verið að æfa hjá þessum liðum þá veit ég að það er ekki sjálfgefið að ég verði valinn. Ef það gerist verð ég þakklátur tækifærinu og mun leggja mig fram við að nýta það,“ bætti Tryggvi við að lokum.

Tryggvi hefur æft með Phoenix, Dallas, Denver, LA Clippers, Boston og Oklahoma undanfarna daga en nýliðavalið hefst klukkan 23:00 að íslenskum tíma. „Hvort sem hann verði valinn eða ekki er þetta stór dagur og mikill heiður fyrir Tryggva og íslenskan körfubolta. Það er ánægjulegt að sjá íslenska körfuboltann vekja svona athygli vestanhafs,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, í dag.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert