Fannst ég sýna að ég á nóg eftir

Hlynur Bæringsson og Logi Gunnarsson í leik í vetur. Logi …
Hlynur Bæringsson og Logi Gunnarsson í leik í vetur. Logi er hættur í landsliðinu en Hlynur heldur áfram enn um sinn. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er bara kominn með allt mitt hérna, vinnuna og krakkana hér í skóla, allir sáttir, svo það lá beinast við að vera hérna áfram. Þegar hlutirnir fóru að skýrast hjá félaginu var þetta borðleggjandi,“ segir Hlynur Bæringsson, landsliðsfyrirliði í körfubolta, sem samið hefur við Stjörnuna til ársins 2020.

Hlynur hefur leikið tvær leiktíðir með Stjörnunni síðan hann sneri aftur til Íslands úr atvinnumennsku og verið í aðalhlutverki hjá liðinu. Þegar nýi samningur hans við Stjörnuna rennur út verður hann hins vegar tæplega 38 ára gamall, og því má kannski spyrja hvort að líkaminn sé ekki orðinn lúinn eftir langan feril:

„Jú, jú, hann er orðinn það. Ég þarf til dæmis að fara að koma mér af stað núna aftur ef ég ætla ekki bara að drepast á næstu leiktíð. Auðvitað er maður orðinn aðeins eldri, ég er ekki eins góður og fyrir tíu árum, en mér fannst ég samt sýna það á þessari leiktíð að ég á alveg nóg eftir,“ segir Hlynur, og óhætt er að taka undir þau orð. Hlynur býst hins vegar við miklu af samherjum á borð við Tómas Þórð Hilmarsson og Dag Kár Jónsson, en þeir skrifuðu einnig undir samning til næstu tveggja ára í dag. Dagur snýr aftur heim frá Grindavík en Tómasi hefur Hlynur kynnst vel síðustu ár:

„Ég verð ekkert endalaust í einhverju aðalhlutverki, og ég vona að með komu Dags og með því að strákar eins og Tommi verði árinu eldri, þá beri þeir liðið meira uppi þó að ég geri það líka. Hlutverkin breytast með aldrinum,“ segir Hlynur, en mbl.is ræddi við hann í Mathúsi Garðabæjar í dag eftir að greint var frá hinum nýju samningum þríeykisins.

Var með höfuðverki fyrst á eftir

Stjarnan var slegin út í 8-liða úrslitum Dominos-deildarinnar í vetur, af ÍR, en Hlynur gat ekki tekið þátt í lokaleik einvígisins eftir slæmt höfuðhögg sem hann fékk frá Ryan Taylor. Taylor var úrskurðaður í þriggja leikja bann fyrir höggið sem olli Hlyni heilahristingi:

Hlynur Bæringsson fékk afar slæmt höfuðhögg í leik við ÍR …
Hlynur Bæringsson fékk afar slæmt höfuðhögg í leik við ÍR í 8-liða úrslitum Dominos-deildarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér líður ágætlega núna. Ég var með höfuðverki fyrst eftir þetta en mér finnst þeir hafa minnkað. Ég hef ekkert hreyft mig að ráði og þetta kemur betur í ljós þegar ég fer í meira „action“. Ég fékk heilahristing en mér líður ekkert illa dags daglega núna,“ segir Hlynur. Hann gat því lítið gert við því að Stjarnan skyldi tapa fjórða leik sínum við ÍR en segir leiktíðina í heild ekki hafa verið nægilega góða:

Góður Kani skilið á milli undanúrslita og fallbaráttu

„Tímabilið var vonbrigði. Við gerðum margt ágætlega, en tímabilið var bara erfitt frá byrjun, þegar Collin [Pryor] var kominn en fékk ekki íslenskan ríkisborgararétt. Þá vorum við með hann, frábæran leikmann og karakter, sem var samt ekki þessi Kani sem við þurftum. Það er bara einn Kani leyfður í hverju liði og þá getur tímabilið staðið og fallið með því hvernig valið á honum heppnast. Við sjáum það að lið sveiflast svakalega til og frá á milli ára, og menn draga rosalegar ályktanir um að allt sé orðið mikið betra í klúbbunum þegar það eina sem liggur að baki getur verið að þessa leiktíðina heppnaðist valið á Kananum vel. Ég fullyrði það að munurinn á því að fá frábæran Kana eða ekki getur valdið því að lið spili í undanúrslitum í stað þess að falla. Samsetningin á liðinu var svolítið skrýtin og það gerði okkur erfitt fyrir,“ segir Hlynur.

Veit ekki hvort þetta verða síðustu landsleikirnir

Landsliðsfyrirliðinn verður væntanlega með í leikjunum við Búlgaríu og Finnland 29. júní og 2. júlí, þegar fyrri hluta undankeppni HM lýkur, en er ekki viss um framhaldið:

Hlynur Bæringsson á ferðinni í sigrinum sæta á Tékkum í …
Hlynur Bæringsson á ferðinni í sigrinum sæta á Tékkum í vetur. mbl.is/Kristinn Magnúss.

„Mig langar að spila með landsliðinu áfram. Ég veit ekki hvort þetta verða síðustu leikirnir mínir í sumar. Þetta er erfiði tímasetning fyrir mig, því ég verð búinn að vera þrjá mánuði án þess að spila körfubolta þegar leikirnir byrja. Vonandi verða aðstæður þannig að strákur eins og Tryggvi [Snær Hlinason] geti æft almennilega með okkur, og verið í því hlutverki sem hann á að vera. Ég er alveg til í að vera til staðar fyrir hann og Kristó[fer Acox] ef það hjálpar eitthvað, en ég ætla ekki að vera hangandi þarna inni ef aðrir eru orðnir betri. Ég get alveg séð fyrir mér að hjálpa áfram í öðruvísi hlutverki, en ég veit ekkert um þetta. Það er bara svo gaman að hitta landsliðið, alveg einstakt og allt öðruvísi en öll atvinnumennska.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert