Kann „Magic“ að sigra í jakkafötum?

Earvin
Earvin "Magic" Johnson þakkar fyrir sig þegar hann var tekinn inn í Frægðarhöll NBA árið 2002. Reuters

Earvin „Magic“ Johnson, ein skærasta stjarna í sögu Los Angeles Lakers, á sér þann draum heitastan um þessar mundir, að því er virðist, að endurreisa liðið og koma því á þann stall að það geti barist um NBA-titilinn. Johnson er nú eins konar íþróttastjóri hjá Lakers og horfir til þess að næla í stjörnuleikmann næsta sumar. 

Lakers hefur gengið illa síðustu árin og fyrir um ári fór Johnson að starfa fyrir félagið. Sagðist hann opinberlega hafa verið orðinn þreyttur á að horfa upp á slæmt gengi liðsins sem verið hefur svo sigursælt í gegnum tíðina. Áður hafði hann verið óspar á gagnrýnina á samskiptamiðlum eins og Twitter. 

Johnson var leikstjórnandi Lakers-liðsins á níunda áratugnum og varð fimm sinnum NBA-meistari með liðinu. Varð hann um leið einn vinsælasti íbúinn í borginni. Johnson varð auk þess háskólameistari með Michigan og ólympíumeistari með Bandaríkjunum 1992 á sínum leikmannaferli. Hann hefur hins vegar enga reynslu af því að stjórna körfuboltaliðum eða körfuboltafélögum. Hann hefur átt velgengni að fagna í viðskiptum um langa hríð en hvað íþróttir varðar er hann einn af eigendum hafnaboltaliðsins LA Dodgers. Á árum áður átti hann hlut í Lakers. 

Johnson mun vera í góðum samskiptum við Jeanie Buzz, forseta félagsins, en hún er dóttir Jerry Buzz sem var eigandi Lakers þegar Johnson var upp á sitt besta sem leikmaður. „Jeanie Buss hefur gert afar vel í því að viðhalda sýn föður síns á Lakers. Hjá henni snýst allt um titla. Við erum með allt til alls sem sigurlið þarfnast. Fólk getur séð það. Hvaða annað lið getur sagt að þótt það hafi átt fjögur slæm tímabil í röð þá sé samt uppselt á leikina?“

Uppistandarinn og sjónvarpsmaðurinn Jerry Seinfeld og Earvin
Uppistandarinn og sjónvarpsmaðurinn Jerry Seinfeld og Earvin "Magic" Johnson í hláturskasti á leik í NBA. Stjörnurnar í Hollywood hafa í tæplega fjörutíu ár sóst eftir félagsskap Johnsons. Reuters

Liðið þarf reyndan öflugan mann

Í viðtali sem Shaun Powell tók við Johnson á dögunum kom fram að Johnson geti eytt miklu af sínum tíma í að finna leikmenn fyrir félagið. Af þeim sökum er búist við því að Lakers muni næla í öflugan leikmann í sumar. Mörg nöfn hafa verið nefnd í því sambandi af fjölmiðlum en ekkert virðist vera í hendi á þessum tímapunkti. 

Johnson segist ekki vilja fara í leikmannaskipti sem geti einungis virkað vel fyrir liðið til skamms tíma. Hann segir að efniviðurinn sé talsverður í leikmannahópi Lakers því þar séu frambærilegir ungir leikmenn. Takist liðinu að ná í hæfileikaríkan leikmann til að draga vagninn þá geti liðið verið í hópi bestu liða deildarinnar að hans mati. 

„Við eigum nokkra góða unga leikmenn en bæta þarf við reyndari mönnum. Þú sérð hvað Jimmy Butler gerði fyrir Minnesota og Kyrie Irving fyrir Boston. Skoðaðu hvernig liðunum gekk fyrir og eftir þau félagaskipti. Þar þurftu menn stjörnuleikmenn til að hjálpa liðinu að ná lengra. Er það akkúrat það sem við þurfum hér. If við fáum slíkan leikmann þá erum við eins og Minnesota og Boston. Þá verðum við lið sem getur keppt við þá bestu.

Ég held að leikmenn sem eru að renna út á samningum hjá öðrum liðum sjái möguleikana hjá okkur. Svona lagað verður þó ekki gert í einni svipan. Þú verður að byggja upp liðið og við viljum því ekki fara út í heimskuleg skipti á leikmönnum sem myndu hjálpa liðinu til skamms tíma en ekki hjálpa til við að keppa um titilinn á næstu árum. Ég ætla að byggja upp með skynsamlegum hætti,“ sagði Johnson í fyrrnefndu viðtali.

Hann nefndi enn fremur annan möguleika. Ef Lakers fer sér hægt næsta sumar þá mun liðið hafa gott svigrúm til að bjóða nýjum manni góð laun sumarið 2019 en þá er útlit fyrir að toppmenn verði með lausan samning eins og Kawhi Leonard og Klay Thompson (faðir hans Mychal lék með Magic hjá Lakers. Kom þangað í skiptum fyrir Pétur Guðmundsson frá San Antonio árið 1986). 

Earvin Magic Johnson og Kobe Bryant í Staples Center þegar …
Earvin Magic Johnson og Kobe Bryant í Staples Center þegar Bryant var heiðraður fyrir sitt framlag. AFP

Fer á fætur klukkan 4

Margir körfuboltaunnendur bíða spenntir eftir því að sjá hvort Johnson hafi þá þekkingu sem þarf til að setja saman meistaralið. Sigursælum leikmönnum af hans kynslóð hefur ekki gengið of vel að kreista fram árangur við stjórnum NBA-félaga. Michael Jordan er eigandi Charlotte, Isiah Thomas var í framkvæmdastjórastöðu hjá New York og Larry Bird hjá Indiana. Engum þeirra hefur tekist að vinna deildina í jakkafötum en öllum tókst það í stuttbuxum og hlýrabolum. 

Einn þeirra sem nú kemur að stjórnun Lakers er Rob Pelinka sem var umboðsmaður Kobe Bryant sem lék allan sinn NBA-feril með Lakers. Pelinka segir Magic Johnson vera ástríðufullan gagnvart verkefni sínu hjá Lakers og heldur ekki aftur af sér í þeim lýsingum. 

„Magic er óþreytandi í viðleitni sinni til að ná árangri. Hann er jákvæðasta og áhugasamasta manneskja sem ég hef nokkurn tíma rekist á. Hann vaknar klukkan 4 á nóttunni til að fara í ræktina og hann byrjar að hringja í mig klukkan 6 með alls kyns hugmyndir og framtíðarsýn. Hann hefur einstaka sýn á hlutina. Ég er tilbúinn til þess að vinna þá vinnu sem þarf til að hans sýn á Lakers megi verða að veruleika,“ hefur Powell eftir Pelinka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert