Haukur fer til Disneylands

Haukur Helgi Pálsson og Hlynur Bæringsson í landsleik gegn Búlgaríu.
Haukur Helgi Pálsson og Hlynur Bæringsson í landsleik gegn Búlgaríu. mbl.is/Kristinn

Haukur Helgi Pálsson verður meðal þeirra sem fá að láta ljós sitt skína í Leiðtogabikarnum (e. Leaders Cup) sem er einn af aðalviðburðum hvers tímabils í franska körfuboltanum.

Í Leiðtogabikarnum taka þátt þau átta lið sem efst eru í frönsku A-deildinni þegar keppnistímabilið er hálfnað. Cholet, lið Hauks, náði óvænt inn í keppnina með því að vinna þrjá síðustu leiki og er liðið í 8. sæti, einum sigri fyrir ofan þrjú næstu lið.

Talsvert er gert úr Leiðtogabikarnum sem leikinn er í Disneylandi í París, með útsláttarfyrirkomulagi, en sigurvegarinn má taka þátt í Áskorendabikar Evrópu á næstu leiktíð. Monaco hefur unnið bikarinn tvö síðustu ár.

Dregið verður í 8 liða úrslit næsta fimmtudag. Cholet er í neðri styrkleikaflokki og gæti mætt Monaco, Le Mans, Limoges eða Strasbourg. Keppnin fer fram dagana 16.-18. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert