Vinkonurnar keppast um að setja met

Sólrún Inga í leik með Costal Georgia.
Sólrún Inga í leik með Costal Georgia. Ljósmynd/Aðsend

Sólrún Inga Gísladóttir, 21 árs gömul körfuboltakona frá Hafnarfirði, gerði sér lítið fyrir og skoraði níu þriggja stiga körfur í 95:70-sigri Costal Georgia á Keiser í banda­ríska há­skóla­bolt­an­um í körfu­bolta í fyrradag. Aldrei áður hefur leikmaður skólans skorað svo margar þriggja stiga körfur í einum leik, en hún skoraði sjálf átta slíkar í leik fyrir áramót sem var jöfnun á skólametinu.

Blaðamaður mbl.is heyrði í Sólrúnu í dag og ræddi við hana um leikinn og lífið í Georgíu-ríki í Bandaríkjunum. Eins og gefur að skilja leið henni vel eftir áfangann og þá athygli sem hún hefur hlotið á Íslandi fyrir vikið.

Mikil keppni á milli vinkvennanna

„Mér líður bara vel eftir þennan leik og það er gaman að allir heima séu að fylgjast með. Það er mikill heiður að bæta skólametið. Í leiknum fyrir áramót vissum við ekki hvað metið var, eða vorum ekkert að pæla í því. Við komumst að því eftir leikinn að ég hafi jafnað skólametið. Eftir að ég frétti það þá var markmiðið bara að bæta það. Gaman að segja frá því að besta vinkona mín hérna úti jafnaði líka skólametið rétt eftir áramót. Þú getur rétt ímyndað þér keppnina á milli okkar, hver setur næsta met,“ sagði Sólrún. Hún segir liðið spila mikið upp á að hún fái frí skot. 

„Ég hef alltaf verið ágæt þriggja stiga skytta. En aðalhlutverkið mitt hérna úti er að skjóta þegar ég er opin. Við spilum alls konar kerfi, meðal annars kerfi fyrir mig til að ég fái opið þriggja stiga skot. Það hjálpar mikið, plús í hraðaupphlaupunum þá á ég að standa fyrir aftan þriggja stiga línuna og vera tilbúin að skjóta. Þegar körfurnar fara svo að detta niður, þá hækkar sjálfstraustið og það hjálpar bara enn meira til.“

Sólrún brosmild á vellinum, sennilega nýbúin að skora þriggja stiga …
Sólrún brosmild á vellinum, sennilega nýbúin að skora þriggja stiga körfu. Ljósmynd/Aðsend

Sólrún er mjög hrifin af lífinu og tilverunni í Georgíu. Það er nóg að gera, enda í ströngu námi og mikil áhersla lögð á körfuboltann. 

Mikið að gera en lífið yndislegt

„Lífið er yndislegt, mikið að gera en samt skemmtilegt. Týpískur dagur hjá mér er skóli til 13:00, æfing og/eða videofundur um 13-leytið til sirka 17, kvöldmatur og síðan lærdómur. Auðvitað finnur maður tíma til að gera eitthvað annað í millitíðinni. Við til dæmis búum 10 mínútum frá ströndinni, þannig að ef það er gott veður er vinsælt að fara á ströndina til dæmis að læra eða bara slaka á.“

Sólrún hefur leikið með Haukum allan sinn feril á Íslandi. Hún segir deildina í Bandaríkjunum vera hraðari en deildina heima. Meiri nákvæmi sé hins vegar í deildinni heima, enda margir leikmenn eldri en í háskólaboltanum. 

„Aðalmunurinn á deildinni heima og hér er að leikurinn er hraðari hérna. Hann er ekki eins nákvæmur og heima, þar sem margir leikmenn hafa mikla reynslu á Íslandi og eru eldri en stelpurnar hérna. En mér finnst ég hafa lært margt á þessum 5 mánuðum sem ég get nýtt mér þegar ég kem til baka. Planið er að útskrifast sem fyrst, ég fékk nokkur fög metin, þannig að ég ætti að geta útskrifast aðeins fyrr,“ sagði Sólrún að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert