„Hef náð miklum árangri á stuttum tíma“

Dagur Kár Jónsson í leik með Grindavík.
Dagur Kár Jónsson í leik með Grindavík. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

„Ég sé fram á að vera tilbúinn í næsta leik,“ sagði Dagur Kár Jónsson, leikmaður Grindavíkur í körfuknattleik, við mbl.is í dag en hann hefur verið að glíma við hnémeiðsli og verið sárt saknað af Grindavíkurliðinu.

Dagur meiddist undir lok leiks gegn KR í Dominos-deildinni hinn 10. nóvember þar sem Grindavík vann 94:84. Hann hefur misst af tveimur leikjum í kjölfarið, gegn Njarðvík og Stjörnunni, sem báðir hafa tapast. Hann hafði skorað 14 stig að meðaltali í leik áður en hann meiddist og er með næstbestu tölfræði í stoðsendingum í deildinni.

„Ég lenti illa á móti KR og klemmdi sin í hnénu sem tognaði. Eftir að hafa verið í sjúkraþjálfun og hitt bæklunarlækni þá var ákveðið að það væri skynsamlegt að hvíla í þessum tveimur leikjum þar sem ég var ekki orðinn heill,“ sagði Dagur Kár við mbl.is í dag, en fyrst var óttast að um alvarleg meiðsli væri að ræða.

„Þetta leit mjög illa út fyrst og fyrstu dagana gat ég ekki stigið í fótinn eða hreyft á mér hnéð. En með sjúkraþjálfun hef ég náð miklum árangri á stuttum tíma og svo staðfesti bæklunarlæknirinn að þetta væri ekkert alvarlegra en þessi tognun,“ sagði Dagur Kár.

Nú er stutt hlé á deildinni vegna landsleiks Íslands og Tékklands í vikunni, en Grindavík spilar næst við Hauka hinn 3. desember. Dagur stefnir á að taka þátt í þeim leik.

„Núna kemur gott landsleikjahlé svo ég sé fram á að vera tilbúinn í næsta leik sem er ekki fyrr en 3. desember. Ég er byrjaður aðeins að skokka, skjóta og hreyfa mig svo þetta er allt á góðri leið,“ sagði Dagur Kár við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert