Ólíkur veruleiki liðanna

Darri Hilmarsson og Jón Arnór Stefánsson máttu sætta sig við …
Darri Hilmarsson og Jón Arnór Stefánsson máttu sætta sig við tap í gær. mbl.is/Golli

Belgíska liðið Belfius Mons-Hainaut reyndist of sterkt fyrir Íslands- og bikarmeistara KR þegar liðin mættust í 1. umferð Evrópubikars karla í körfuknattleik í Frostaskjóli í gærkvöld. Belfius sigraði, 88:67, en grunnurinn var lagður með frábærum leikkafla um miðjan þriðja leikhluta.

KR-ingar héldu spennu í leiknum fram í þriðja leikhluta og gott betur en það því KR var þremur stigum yfir í þriðja leikhluta. KR-ingar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og með þriggja stiga körfum frá Pavel Ermolinskij, Jóni Arnóri Stefánssyni og Brynjari Þór Björnssyni kviknaði von um íslenskan sigur í fyrsta Evrópuleik hjá íslensku félagsliði í körfuknattleik í áratug.

Belfius var yfir 35:31 að loknum fyrri hálfleik og var betra liðið í leiknum. Í þriðja leikhlutanum náði belgíska liðið 13:0 kafla á skömmum tíma og eftir það átti KR litla möguleika. Gestirnir hittu miklu betur og þar lá hundurinn grafinn. Munurinn í hittni fyrir utan þriggja stiga línuna var of mikill. Leikmenn Belfius hittu úr 12 af 20 þristum sem gerir 60% hittni en KR-ingar hittu úr 7 af 35 þristum sem er 20% hittni.

Bakverðir í aðalhlutverki

Veruleiki þessara liða er mjög ólíkur. Belgíska liðið teflir fram sex Bandaríkjamönnum en KR er með einn bandarískan leikmann. Bandarísku bakverðirnir hjá Belfius voru virkilega góðir. Tre Demps skoraði 27 stig og var illviðráðanlegur. Darri Hilmarsson er öflugur varnarmaður og reyndi að halda aftur af Demps en hafði ekki erindi sem erfiði. Garlon Green hitti úr fjórum þristum í sex tilraunum auk þess að eiga eina hrikalega troðslu við endalínuna.

Belgíska liðið var með fleiri hávaxna menn sem voru sterkari nærri körfunni. Ekkert sem þarf að koma á óvart í því en þegar þeir hitta einnig úr skotunum fyrir utan þriggja stiga línuna er ljóst að erfitt er fyrir Íslandsmeistarana að hafa betur.

Nánar er fjallað um Evrópuleik KR í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert