Körfubolti var bara til í frímínútum í skólanum

Tryggvi Snær Hlinason.
Tryggvi Snær Hlinason. Ljósmynd/FIBA

Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður í körfuknattleik, var valinn í fimm manna úrvalslið Evrópumóts U20 ára landsliða sem lauk á Krít um helgina.

Ísland hafnaði þar í áttunda sæti mótsins og var Tryggvi með hæstu framlagspunkta allra leikmanna og á meðal efstu manna í stigum og fráköstum, en þrátt fyrir það kom honum á óvart að vera valinn í liðið sem útnefnt var eftir úrslitaleikinn á sunnudagskvöld. Með því var hann í raun valinn besti miðherji keppninnar.

„Já, eiginlega. Ég reiknaði með að fyrst við urðum í 8. sæti þá kæmist maður ekki í liðið, það hefur sjaldan eða aldrei leikmaður úr liði sem hafnaði svo neðarlega verið valinn. Mér brá því svolítið,“ sagði Tryggvi þegar Morgunblaðið ræddi við hann fyrir heimför íslenska liðsins frá Krít.

Benedikt Guðmundsson, nýr körfuboltasérfræðingur Morgunblaðsins, fjallaði um Tryggva í pistli í blaðinu á laugardag. Hann minntist þar á að Tryggvi hefði verið falinn gimsteinn innst í Bárðardal sem hefði nánast aðeins hlaupið á eftir lömbum en ekki boltum sem ungur strákur og þekkti allar tegundir dráttarvéla sem framleiddar væru en ekki menn á borð við Jón Arnór Stefánsson. Tryggvi hafði heyrt af pistlinum þegar blaðamaður bar það undir hann.

„Ég var alltaf í íþróttum og að hreyfa mig, en körfubolti var bara það sem maður gerði í frímínútum í skólanum. Núna þegar ég horfi til baka áttar maður sig á því. Þannig byrjaði áhuginn, það þarf að byrja einhvers staðar,“ sagði Tryggvi sem er frá Svartárkoti í Bárðardal. En var áhuginn meiri á dráttarvélum en íþróttum eða var Benedikt bara að ýkja?

„Á þessum tíma þá, já örugglega, ég trúi öllu sem hann segir. Ég hafði eiginlega bara ekki hugmynd hvað ég ætlaði mér að gera. Ég gat alveg hugsað mér að taka við búinu. Að vera íþróttamaður var engan veginn inni í myndinni. Það er svolítið búið að breytast núna.“

Sjá allt viðtalið við Tryggva í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert