Það skoraði enginn neitt hjá þeim

Darri Hilmar, leikmaður KR, með Íslandsmeistarabikarinn í höndunum.
Darri Hilmar, leikmaður KR, með Íslandsmeistarabikarinn í höndunum. mbl.is/Árni Sæberg

Darri Hilmarsson skoraði átta stig fyrir KR sem hafði betur gegn Grindavík í oddaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta. Lokatölur voru 95:56 í ansi sannfærandi sigri KR. Darri segir þetta vera einn besta leik KR í vetur. 

„Þetta er tvímælalaust með betri leikjum okkar í vetur, það losnaði um allar tilfinningarnar. Það kom andi yfir okkur sem gerði okkur óstöðvandi. Við rifum húsið með okkur, það gekk allt upp hjá okkur."

„Þegar þú heldur liði í 18 stigum í fyrri hálfleik, þá ertu í góðum málum. Við fengum ekki stig á okkur síðustu sjö mínúturnar í fyrri hálfleik. Það er auðvelt að fara yfir í sóknina þegar þeim gengur illa að skora og því má segja að varnarleikurinn hafi skilað þessu."

Lewis Clinch, besti leikmaður Grindavíkur átti ekki góðan dag í dag. 

„Hann er búinn að vera frábær í seríunni, en hann átti ekki sinn besta dag í dag. Við gáfum honum ekki neitt og þá er erfitt að koma sér upp. Vörnin okkar var rosalega góð og það skoraði enginn neitt hjá þeim."

KR vann sinn fjórða titil í röð í kvöld og var Darri sérstaklega sáttur með að vinna á heimavelli. 

„Það er ekkert mál að fagna þessum titlum, það er erfiðara að vinna fyrir þeim. Við erum sérstaklega sáttir með að vinna á heimavelli því við höfum unnið á útivelli síðustu þrjú ár," sagði hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert