Sviðið var allt of stórt fyrir okkur

Jóhann Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.
Jóhann Ólafsson, þjálfari Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur var að sjálfsögðu svekktur eftir 95:56 tap sinna manna gegn KR í oddaleik lokaúrslitanna um Íslandsmeistaratitilinn. Hans menn náðu sér engan veginn á strik í kvöld, eins og lokatölurnar gefa til kynna.

„Það klikkaði allt sem klikkað gat. Við vorum slakir, sama hvar litið er á, en KR-ingar fundu taktinn í því að byrja að hafa gaman að hlutunum og virða það að vera í þessari keppni. Þá eru þeir hörkugóðir, á sama skapi féllum við á eigin meðali. Þeir tóku alla lausa bolta, sem hefur verið að gefa okkur mikið."

„Það er erfitt að segja hvað það er sem klikkar, mögulega var sviðið allt of stórt fyrir okkur. Ég sjálfur hef aldrei upplifað neitt svona áður. Það eru einhverjir ljósir punktar, þetta fer í reynslubankann en ég er fyrst og fremst sáttur að spila ekki betur en þetta þegar það er mikið undir."

„Þegar þeir voru að byggja upp sitt forskot, þá hættum við að spila eins og við gerum venjulega. Við reyndum að skora meira en eina körfu í hverri sókn og við förum að klikka úr góðum færum. Menn hættu svo að hlaupa til baka og við förum að svekkja okkur á því sem er búið."

Grindavík komst í undanúrslit bikarsins, ásamt því að spila oddaleik við KR um Íslandsmeistaratitilinn. Jóhann segist vera sáttur við þann árangur, sem er betri en flestir spáðu um. 

„Að sjálfsögðu erum við sáttir við tímabilið, en þetta er mjög sárt í kvöld. Ef maður sest niður eftir tvo daga, þá verður maður pottþétt sáttur," sagði Jóhann Þór Ólafsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert