Lettarnir voru of sterkir fyrir SA

SA glímir við þrjú öflug atvinnulið í annarri umferðinni í …
SA glímir við þrjú öflug atvinnulið í annarri umferðinni í Lettlandi. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Skautafélag Akureyrar beið lægri hlut fyrir hinu öfluga lettneska meistaraliði Kurbads Riga, 9:2, í fyrsta leik sínum í annarri umferð Evrópubikars karla í íshokkí en keppni í C-riðli hófst í Riga í dag.

Lettarnir voru 3:0 yfir eftir fyrsta leikhluta og voru komnir í 7:0 um miðjan annan hluta, eftir að hafa skorað fjögur mörk á erfiðum þriggja mínútna kafla.

Eftir það náði SA að koma sér betur inn í leikinn, Jussi Sipponen minnkaði muninn í 7:1 undir lok annars hluta. Lettarnir komust í 9:1 í þeim síðasta áður en Markus Laine skoraði síðasta mark leiksins fyrir SA þegar enn voru tíu mínútur til leiksloka.

Úkraínsku meistararnir Donbass sigruðu spænsku meistarana Txuri Urdin San Sebastian, 6:2, í fyrri leik dagsins. SA mætir Donbass á morgun og Txuri í lokaumferðinni á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert