Eitrað fyrir Slóvenum í Egyptalandi?

Slóveninn Dean Bombac reynir að komast framhjá Egyptanum Ibrahim El …
Slóveninn Dean Bombac reynir að komast framhjá Egyptanum Ibrahim El Masry í leiknum í gær. AFP

Slóvenska handknattleikssambandið hefur ásakað Egypta um að hafa eitrað fyrir landsliðsmönnum sínum fyrir hinn mikilvæga leik þjóðanna í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins sem fram fór í gær.

Honum lauk með jafntefli, 25:25, og stigið dugði Egyptum til að ná öðru sæti riðilsins og komst í átta liða úrslit þar sem þeir mæta Dönum en Slóvenar eru úr leik.

Á heimasíðu slóvenska handknattleikssambandsins er sagt að tólf leikmanna liðsins hafi fengið matareitrun sólarhring fyrir leikinn gegn Egyptum og margir þeirra hafi verið sárkvaldir af þeim sökum.

„Leikmennirnir emjuðu af sársauka, voru með uppköst og niðurgang. Stas Skube og Dragan Gajic voru illa haldnir um nóttina og í búningsklefanum fyrir leikinn var Blaz Blagotinsek algjörlega búinn og var fluttur aftur á hótelið. Níu leikmenn sem voru veikir ákváðu að harka af sér og fórna sér fyrir liðið og reyna að komast í hóp átta bestu landsliða heims,“ segir á heimasíðu Slóvena.

„Eftir að við höfðum tilkynnt opinberlega um það sem gerðist hafði egypska heilbrigðisráðuneytið samband við okkur en ég á ekki von á neinum aðgerðum á meðan Alþjóðahandknattleikssambandið vinnur á sama hátt og það gerir vanalega,“ segir Goran Cvijic, framkvæmdastjóri handknattleikssambands Slóveníu, á heimasíðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert