Evrópa ræður ríkjum en Argentína er besta liðið

Lionel Scaloni þjálfari Argentínu ræðir við Lionel Messi í leiknum …
Lionel Scaloni þjálfari Argentínu ræðir við Lionel Messi í leiknum gegn Póllandi. AFP/Kirill Kudryavtsev

Átta liða úrslitin eru að hefjast og allir eru að tala um lið Marokkó. Í fjórða sinn er Afríkuþjóð í hópi átta bestu og jafnframt Arabaþjóð í fyrsta skipti.

Philipp Lahm skrifar pistla um knattspyrnu fyrir Morgunblaðið/mbl.is.
Philipp Lahm skrifar pistla um knattspyrnu fyrir Morgunblaðið/mbl.is. Ljósmynd/Philippe Arlt

Alla vega þegar litið er á landafræðina, en þegar horft er til fótboltamenningarinnar er Marokkó Evrópuþjóð.

Önnur af stjörnum liðsins, Achraf Hakimi, leikmaður PSG, fæddist í Madríd og lék með öllum unglingaliðum Real. Hin, Hakim Ziyech frá Chelsea, ólst upp í Hollandi og komst til manns hjá Ajax í Amsterdam.

Phil­ipp Lahm skrif­ar þenn­an pist­il. Hann var fyr­irliði þýska landsliðsins í knatt­spyrnu þegar það varð heims­meist­ari árið 2014 og lék með Bayern München í fimmtán ár. Hann er móts­stjóri Evr­ópu­móts karla sem fram fer í Þýskalandi árið 2024. Pistl­ar hans, „Mitt sjón­ar­horn“, birt­ast reglu­lega í Morg­un­blaðinu og/​​​​eða mbl.is. Þeir eru skrifaðir í sam­vinnu við Oli­ver Fritsch, íþrótta­rit­stjóra þýska net­miðils­ins Zeit On-line, og birt­ast í fjöl­miðlum nokk­urra Evr­ópu­landa.

Marokkó, sem sést auðveldlega yfir hafið frá Andalúsíu á Spáni, hefur lagað sig að spænska reitaboltanum. Leikmennirnir eru nettir, sterkir, sveigjanlegir og með góða tækni. Liðið verst af einbeitingu og sækir hratt af hugrekki.

„Við verðum að taka upp leikstíl Evrópubúa og bæta við hann okkar gildum,“ segir Walid Regragui, þjálfari Marokkó, sem sló Spán út í sextán liða úrslitunum.

Hakim Ziyech og Achraf Hakimi, stjörnuleikmenn Marokkó, leggja á ráðin …
Hakim Ziyech og Achraf Hakimi, stjörnuleikmenn Marokkó, leggja á ráðin í leiknum gegn Spáni. AFP/Karim Jaafar

Þrír fyrrverandi heimsmeistarar eru heima 

Spánn og Þýskaland eru úr leik og Ítalía er ekki einu sinni í keppninni. Þrír af fimm fyrrverandi heimsmeisturum Evrópu horfa bara á keppnina að heiman. Samt hefur Evrópa ráðið ríkjum í Katar. Nær allir mikilvægustu leikmenn liðanna átta sem eftir eru í keppninni eru á mála hjá evrópskum liðum og hafa mótast af hinni hörðu keppni sem ríkir þar.

Argentína og Brasilía eru líka með í slagnum, suðuramerísku risarnir tveir sem hafa ekki unnið titilinn lengi, en eru alltaf með sterk lið. Heimsmyndin hefur því ekkert breyst í fótboltanum. Marokkó er óvænta (samt ekki svo mjög) liðið sem alltaf skýtur upp kollinum og gerir fótboltann enn meira aðlaðandi.

Einstaklingshæfileikar sem ráða úrslitum

Í mínum augum er Argentína besta liðið í þessari heimsmeistarakeppni. Allir leikmenn liðsins ráða yfir grunneiginleikum fótboltans, geta spilað maður gegn manni, hvort sem er í vörn eða sókn, af hörku en samt heiðarlega. Þeir hafa þessa einstaklingshæfileikar sem hverfa í skuggann af leikaðferðum og leikfræðum, en eru það sem ræður úrslitum ef þú ætlar að spila til sigurs.

Argentínsku leikmennirnir sýna endalausa ákefð. Þeir vinna sig inn í hjörtu áhorfenda sem sjá að þarna er liðsheild á ferðinni, og hvers vegna þeir spila fótbolta.

Þjálfarinn Lionel Scaloni er með allt á hreinu. Vanalega eru landslið ekki eins vel skipulögð og félagslið vegna þess að þau æfa sjaldan saman. En lið Argentínu vinnur saman sem ein heild eins og félagslið sem spilar í Meistaradeildinni. Leikaðferðin byggir á að vinna alltaf boltann sem fyrst og verjast framarlega. Þetta er varnarleikur að grunni, en hannaður til að sækja. Vegna þess að Argentínumenn kunna líka að halda boltanum.

Spánverjar spiluðu reitabolta en skutu ekki á markið og eru …
Spánverjar spiluðu reitabolta en skutu ekki á markið og eru farnir heim. AFP/Glyn Kirk

Fann út hvernig ætti að nýta Messi

Til viðbótar þessu hefur Scaloni íhugað vel hvernig eigi að nýta sem best hina stórkostlegu hæfileika hins 35 ára gamla Lionels Messi. Í viðtali við Süddeutsche Zeitung sagði hann frá því hvernig hann af ásettu ráði spilaði án Messi í fyrstu leikjum liðsins undir sinni stjórn, til þess að liðið gæti fundið hvernig það ætti að spila án stjörnuleikmannsins. Síðan bætti hann Messi við liðið.

Argentína og Messi hafa fundið óvenjulega og spennandi vinnuaðferð. Árið 2014, þegar þeir töpuðu fyrir okkur í úrslitaleiknum á Maracana-leikvanginum, virtust liðsfélagar hans bíða stöðugt eftir því að hann gerði hlutina upp á eigin spýtur. Árið 2022 spila þeir fyrir hann, og hann bíður átekta. Sögur eins og þessi ná langt út fyrir heim fótboltans.

Evrópa getur lært margt

Og Scaloni sýnir hvernig á að stjórna liði á snjallan hátt. Það má búast við því að hann muni þjálfa evrópskt stórlið á einhverjum tímapunkti. Fótboltaspilamennskan á Íberíuskaganum í bland við suðurameríska hugarfarið – það er varla hægt að ná lengra í heimsfótboltanum.

Evrópa getur svo sannarlega lært margt af Argentínu og Suður-Ameríku. Þýskaland er með mikinn efnivið en vantar skipulag. Ítalía er alveg á hinn veginn, er með skipulagið en vantar dirfsku og kraft í sóknarleikinn. Spánn er með glæsilegan leikstíl, en vantar löngunina til að takast á maður gegn manni og láta finna fyrir sér.

Lionel Messi nýtur sín í liði Argentínu sem treystir ekki …
Lionel Messi nýtur sín í liði Argentínu sem treystir ekki bara á hann eins og árið 2014. AFP/Alfredo Estrella

Spánverjar spiluðu reitabolta

Spánverjar spiluðu reitabolta í Katar, en eins og við vitum þá snýst hann ekki um að skora mörk. Í Þýskalandi er sagt að fótboltinn sé barnaleikur, vegna þess að þú þurfir ekkert annað en bolta og tvær skólatöskur til að nota fyrir markstangir. Á Spáni þarftu ekki að nota skólatöskurnar.

En fyrir áhorfendur er skemmtilegt að sjá lið sem vinna boltann af mótherjanum og sjá til þess að hann komist ekki fram hjá þér. Marokkó mun sýna þann fótbolta á ný gegn Portúgal. Fótbolti er barátta.

Norður-Ameríka næsti stóri markaður

Í þessi átta liða úrslit vantar gestgjafa heimsmeistaramótsins 2026, sem verður eina ferðina enn haldið utan Evrópu, í þremur löndum sem eru á uppleið í fótboltanum. Mexíkó, sem hélt keppnina 1970 og 1986, vill nýja áskorun, í Bandaríkjunum hefur fótboltinn fest sterkari rætur vegna aukins fjölda íbúa með spænsk/amerískar rætur og hann er á uppleið í Kanada. Fótboltinn styrkist í þessum löndum með því að halda keppnina þar og Evrópa fær tækifæri til að breiða sína fótboltamenningu um heiminn.

Fótboltinn getur haft lýðræðisleg áhrif. Þátttakendur eru mikið fleiri en í tennis eða blaki, meiðslin eru minni en í ameríska fótboltanum, og hann er einfaldlega mikil skemmtun. Norður-Ameríka getur orðið næsti stóri fótboltamarkaður. Það getur ýtt enn frekar við Suður-Ameríku, og Evrópa getur fengið meiri samkeppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert