„Varaliðið“ vann Spán

Zlatko Dalic þjálfari Króata fagnar einu markanna gegn Argentínu.
Zlatko Dalic þjálfari Króata fagnar einu markanna gegn Argentínu. AFP

Það verða ferskir og frábærir fætur Króata sem mæta íslenskum starfsbræðrum sínum annað kvöld í lokaumferð D-riðils HM í knattspyrnu, í borginni Rostov.

Zlatko Dalic, þjálfari Króatíu, hefur ekki farið leynt með að hann hyggist hvíla lykilmenn í leiknum, en leikmannahópurinn er einfaldlega það góður að það hefur mun minna að segja en til að mynda í tilfelli Íslands. Sem dæmi má nefna að „varalið“ Króata vann Spánverja á EM fyrir tveimur árum. Það ætti að duga til að undirstrika hve erfitt verkefni Íslendingar eiga fyrir höndum.

Króatía er í frábærri stöðu í D-riðlinum og mun líklega enda í efsta sæti, jafnvel þó að liðið tapi gegn Íslandi. Aðeins ef Króatía tapar og Nígería vinnur Argentínu, og samtals fimm marka sveifla verður á markatölu liðanna, mun Króatía enda í 2. sæti á eftir Nígeríu.

„Ég vil enda í efsta sæti riðilsins en við verðum að sýna varúð varðandi þá leikmenn sem eru með gult spjald svo ég mun breyta liðsuppstillingunni. Ég mun ekki láta þá byrja leikinn sem eru með gult spjald, því það er of mikil áhætta. Það eru 22 leikmenn í hópnum sem geta spilað,“ sagði Dalic við fréttamenn eftir sigurinn frækna á Argentínu.

Á miklu flugi frá því að Dalic tók við stjórnartaumum

Dalic hefur verið á hárréttri leið með króatíska liðið síðan hann tók við því í fyrrahaust, eftir jafnteflið óvænta við Finna sem færði Íslandi efsta sæti undanriðilsins sem liðin léku í. Undir stjórn Dalic fór Króatía auðveldlega í gegnum Grikkland í HM-umspilinu, og alls hefur liðið aðeins fengið á sig 1 mark en skorað 11 í fimm mótsleikjum með Dalic í brúnni.

Sjá ítarlega umfjöllun um króatíska liðið og um HM í Rússlandi í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert