Slitið krossband í annað sinn á tveimur árum

Haukur Þrastarson er með slitið krossband.
Haukur Þrastarson er með slitið krossband. Ljósmynd/Ein­ar Ragn­ar Har­alds­son

Haukur Þrastaron, leikmaður pólska handknattleiksfélagsins Kielce, er með slitið krossband í hægra hné.

Þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni í dag en Haukur, sem er 21 árs gamall, meiddist í leik Kielce og Pick Szeged í Meistaradeildinni á miðvikudaginn.

Haukur haltraði af velli undir lok fyrri hálfleiks og var strax óttast að krossbandið væri slitið.

Þetta er í annað sinn á tveimur árum sem leikmaður slítur krossband en hann sleit krossband í vinstra hné í október árið 2020.

Hann hafði spilað mjög vel fyrir Kielce í undanförnum leikjum og var óðum að finna sitt gamla form en hann gekk til liðs við pólska félagið frá uppeldisfélagi sínu Selfossi árið 2020.

Óvíst er hvort Haukur muni gangast undir aðgerð heima á Íslandi eða í Póllandi en gera má ráð fyrir því að hann verði frá í ár vegna meiðslanna. Haukur er samningsbundinn Kielce út keppnistímabilið 2024-25.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert