Dagsformið gæti ráðið úrslitum

Þórey Anna Ásgeirsdóttir og liðsfélagar hennar í Val eru mættir …
Þórey Anna Ásgeirsdóttir og liðsfélagar hennar í Val eru mættir til Spánar. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta leggst mjög vel í okkur og við erum mjög spenntar,“ sagði Þórey Anna Ásgeirsdóttir, leikmaður kvennaliðs Vals í handknattleik, í samtali við mbl.is í dag.

Valur mætir Elche í 32-liða úrslitum Evrópubikars kvenna á Alicante á Spáni, á laugardag og sunnudag, en báðir leikirnir fara fram ytra.

„Ég held að þetta gæti orðið mjög spennandi einvígi. Við fórum aðeins yfir þær á myndbandsfundi í gær og þetta er hörkulið.

Þær eru með öfluga leikmenn og landsliðsmenn í sínum röðum þannig að við þurfum að eiga góðan dag ef við ætlum okkur að eiga möguleika gegn þeim.

Fyrirfram þá myndi ég segja að við séum með svipað lið að styrkleikum og það verður því líklegast dagsformið sem mun hafa mest að segja í þessum tveimur leikjum,“ sagði Þórey Anna.

Safnast saman í reynslubankann

Valskonur héldu af landi brott í morgun og var ferðalagið í þægilegri kantinum.

„Ferðalagið til Spánar gekk mjög vel. Það var bara beint flug til Alicante og síðan tók við tíu mínútna rútuferð frá flugvellinum upp á hótel þannig að þetta var eins auðvelt og það gat verið. Það er svo æfing hjá okkur á eftir og þá fáum við aðeins betri tilfinningu fyrir þessu og keppnishöllinni.“

Valskonur hafa spilað frábærlega í deildinni heimafyrir og eru með 5 stiga forskot á toppi deildarinnar.

„Markmiðið er klárlega að komast áfram í næstu umferð en á sama tíma ætlum við líka að njóta þess að vera hérna og hafa gaman að því sem við erum að gera. Við erum með þokkalega ungt lið og þetta safnast allt saman í reynslubankann, sem er aldrei verra,“ bætti Þórey Anna við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert