Björgvin Páll í forsetaframboð?

„Hvort ég verði forseti verður tíminn að leiða í ljós,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Björgvin Páll, sem er 37 ára gamall, á að baki 244 landsleiki fyrir Ísland en hann var lengi vel í umræðunni þegar rætt var um það hver tæki við oddvitastöðunni hjá Framsóknarflokknum í Reykjavík fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar.

Markvörðurinn var að gefa út nýja barnabók; Barn verður forseti, en bókin er byggð á lífi leikmannsins sem hefur upplifað bæði hæðir og lægðir á lífsleiðinni.

„Þegar þessar pælingar byrja í hausnum á mér þá hugsaði ég með mér að ég gæti orðið góður forseti,“ sagði Björgvin.

„Guðni [Th. Jóhannesson] er minn forseti í dag og hann er góður vinur minn þannig að ég mun allavega ekki bjóða mig fram á móti honum. 

Ef hann gefur ekki kost á sér næst þá benti einhver mér á það að næstu forsetakosningar væru í kringum Ólympíuleikana. Ég gæti því orðið fyrsti forsetinn til þess að keppa á Ólympíuleikum,“ bætti Björgvin Páll við í léttum tón.

Viðtalið við Björgvin Pál í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert