Víkingar spila í úrvalsdeildinni

Víkingar og Kría mættust í umspili um sæti í efstu …
Víkingar og Kría mættust í umspili um sæti í efstu deild í handknattleik karla Kristinn Magnússon

Víkingur úr Reykjavík hefur þegið laust sæti í efstu deild karla í handknattleik, Olísdeildinni, á næstu leiktíð.

Kría hafði tryggt sér sæti í deild þeirra bestu með því að sigra Víking í umspili en dró svo lið sitt úr keppni á dögunum. Víkingur var fyrsta varaliðið og því boðið sætið af Handknattleikssambandi Íslands. Í tilkynningu frá HSÍ segir að Víkingar hafi þegið boðið.

Þá segir í tilkynningu frá Halli Magnússyni, varaformanni handknattleiksdeildar Víkinga, að venslalið félagsins, Berserkir, muni líklega taka sæti Víkinga í fyrstu deildinni.

„Fyrirvarinn er lítill en við treystum á að ná að þétta raðirnar bæði innan liðsins sem og í umgjörðinni enda slær Víkingshjartað sterkt ansi víða. Þjálfarar hafa teiknað upp sterkt plan svo nú er bara að vinna í fjármögnun ásamt því að kalla inn og bjóða alla sem vilja velkomna með í ævintýrið,“ er haft eftir Birni Einarssyni formanni aðalstjórnar Víkings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert