Mæta til leiks sem litla liðið

Erlingur Richardsson hefyr stýrt hollenska landsliðinu frá árinu 2017.
Erlingur Richardsson hefyr stýrt hollenska landsliðinu frá árinu 2017. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ísland, Portúgal og Ungverjaland eru öll svipuð að styrkleika og svo erum við þetta óskrifaða blað í riðlinum,“ sagði Erlingur Richardsson, landsliðsþjálfari Hollands, í samtali við mbl.is í dag.

Dregið var í riðla fyrir lokakeppni EM 2022 sem fram fer í Ungverjalandi og Slóveníu í dag en Holland leikur í B-riðli keppninnar ásamt Íslandi, Portúgal og Ungverjalandi.

„Eins og riðillinn horfir við mér þá er hann mjög jafn. Við vorum vissulega með á síðasta Evrópumóti en það mætti alveg segja sem svo að við séum að koma inn á þetta mót sem hálfgerðir nýliðar.

Portúgal og Ísland hafa mæst nokkrum sinnum undanfarið árið og það hafa alltaf verið hörkuleikir. Sama með Ísland og Ungverjaland, alltaf hörkuleikir þegar þessi lið mætast og líka þegar Ungverjaland og Portúgal hafa mæst.

Vonandi getum við komið inn í þetta og reynt að stríða þessum þjóðum aðeins,“ sagði Erlingur.

Kay Smits er á meðal bestu leikmanna Hollands.
Kay Smits er á meðal bestu leikmanna Hollands. Ljósmynd/@raymondkoning

Mikill uppgangur

Hollendingar stóðu sig vel í undankeppninni og höfðu gert sér vonir um að enda í hærri styrkleikaflokki en liðið var í fjórða styrkleikaflokki í drættinum.

„Við enduðum í öðru sæti riðilsins í undankeppninni með jafn mörg stig og Slóvenía sem vann riðilinn. Samt sem áður erum við í fjórða styrkleikaflokki sem sýnir manni hvernig þessar reglur hjá EHF eru.

Við höfðum gert okkur vonir um að lenda ekki endilega í svona sterkum riðli en eins og þetta horfir við mér förum við inn í alla leiki riðlakeppninnar sem litla liði.

Á sama tíma erum við alltaf að reyna bæta okkur og karlahandboltinn í Hollandi er í ákveðnum uppgangi og hefur verið það undanfarin ár.“

Erlingur Richardssoní landsleik með Hollandi á síðasta ári.
Erlingur Richardssoní landsleik með Hollandi á síðasta ári. AFP

Reynslunni ríkari

Erlingur vonast til þess að halda áfram að bæta leik hollenska liðsins á næstu árum.

„Ef við horfum á söguna og tölfræðina eiga öll lið riðilsins að vinna okkur, fyrirfram. Við höfum aldrei spilað gegn Portúgal og Ungverjalandi og við lékum síðast við Ísland á æfingamóti í Noregi í janúar 2019.

Þá stóðum við ágætlega í íslenska liðinu, með ungt lið, en leikmenn liðsins verða þremur árum eldri á næsta ári og vonandi erum við bara farnir að nálgast þessi lið að styrkleika.

Á síðustu árum höfum við gert jafntefli við Slóveníu og, unnið Svíþjóð og Pólland þannig að ég fer fullur bjartsýni inn í þetta mót. Við mætum fullir tilhlökkunar til leiks þar sem markmiðið er að halda áfram að bæta leik liðsins,“ bætti Erlingur við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert