Hákon Daði til Íslendingaliðs í Þýskalandi

Hákon Daði Styrmisson er markahæsti leikmaður úrvalsdeildar karla í handknattleik, …
Hákon Daði Styrmisson er markahæsti leikmaður úrvalsdeildar karla í handknattleik, Olísdeildinni, á tímabilinu. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Vinstri hornamaðurinn Hákon Baði Styrmisson er búinn að semja við þýska B-deildarliðið Gummersbach, sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar. Hákon Daði, sem kemur frá ÍBV, gerir tveggja ára samning og gengur til liðs við þýska handknattleiksliðið í sumar.

„Ég er mjög spenntur að fá hann. Hákon Daði er góður strákur sem ég hef þekkt um nokkurt skeið. Hann er mjög fljótur og hættulegur leikmaður,“ sagði Guðjón Valur við opinbera heimasíðu Gummersbach í dag.

Hákon Daði, sem er 23 ára, hefur unnið Íslandsmeistaratitla með bæði uppeldisfélagi sínu ÍBV og Haukum og á að baki leiki með öllum yngri landsliðum Íslands og A-landsliðinu.

„Með því að ganga til liðs við Gummersbach vil ég taka næsta skref á ferli mínum. Þetta er vel þekkt félag með frábæran metnað. Ég hef bara heyrt góða hluti um félagið,“ sagði Hákon Daði við heimasíðu Gummersbach.

„Þrátt fyrir ungan aldur býr hann yfir mikilli reynslu. Þar sem hann er alltaf að keppa um titla á Íslandi er hann vanur því að vera undir pressu og er góður að höndla hana,“ bætti Guðjón Valur við.

Hjá Gummersbach hittir hann fyrir annan Eyjamann, línumanninn Elliða Snæ Viðarsson.

Gummersbach er sem stendur í þriðja sæti þýsku B-deildarinnar, einu stigi frá Hamburg og N-Lübbecke í efstu tveimur sætunum. Efstu tvö sætin gefa bæði sæti í þýsku 1. deildinni, sem Gummersbach féll úr á síðasta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert