Algjörlega sjálfum okkur verstar

Lovísa Thompson reynir skot að marki KA/Þórs í leiknum í …
Lovísa Thompson reynir skot að marki KA/Þórs í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lovísa Thompson, vinstri skytta í liði Vals í handknattleik, átti góðan leik bæði í sókn og vörn þegar Valur og KA/Þór gerðu 23:23 jafntefli í Olísdeildinni í kvöld. Skoraði hún átta mörk í leiknum.

Lovísa var svekkt með að lið hennar hefði ekki unnið leikinn. „Ég verð bara að segja að ég er svolítið mikið svekkt með hvernig þessi leikur fór. Við erum algjörlega sjálfum okkur verstar í þessum leik og erum að fara með frekar góð færi á köflum, ekki að nýta tækifærin sem við fengum þegar við fengum þau,“ sagði Lovísa í samtali við mbl.is eftir leik.

Þegar örfáar sekúndur voru eftir var Valur í sókn þar sem Lovísa reyndi gegnumbrot en fékk dæmt á sig sóknarbrot þess í stað. Aðspurð hvernig þetta atvik horfði við henni sagði Lovísa:

„Ég ætlaði bara að bomba mér í gegnum eitt og tvö eins og það kallast og sjá hvað myndi gerast. Ég á eftir að sjá hvernig þetta leit út fyrir dómurunum en ég upplifði það þannig að þær hefðu komið báðar, sitt hvoru megin við mig, og að ég hefði getað fengið víti. En svo er það náttúrulega alltaf dómaranna að meta hvort þetta sé rétt og þeir mátu þetta svona og það er bara þannig.“

Lovísa sagði deildina mjög jafna og spennandi og líst henni prýðilega á framhaldið. „Það er hver og einn leikur ótrúlega mikilvægur og spennandi eins og hefur komið í ljós og þessi leikur endar einmitt með jafntefli.

Það eru óvænt úrslit alls staðar í deildinni þannig að maður þarf að vera á tánum í hverjum einasta leik og það þýðir ekkert að slappa af. Deildin er komin niður í tvær umferðir og þá telur hver leikur ótrúlega mikið þannig að við þurfum bara að halda haus og halda áfram. Við erum með háleit markmið og stefnum hátt,“ sagði Lovísa að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert