Það allra slakasta sem HSÍ býður upp á

Kristinn Guðmundsson var ómyrkur í máli eftir leik ÍBV og …
Kristinn Guðmundsson var ómyrkur í máli eftir leik ÍBV og Aftureldingar í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Kristinn Guðmundsson, annar þjálfara ÍBV, var vonsvikinn og reiður eftir leik sinna manna gegn Aftureldingu í Olís-deild karla. Leikurinn tapaðist 23:24 en Afturelding var að elta allan leikinn þangað til þeim tókst að jafna metin þegar lítið var eftir.

„Fyrst og fremst óðagot og sóknarleikurinn í seinni hálfleik, síðustu 16 eða 17 mínúturnar. Það gefur augaleið hvað það er sem klikkar, það er eitthvað sem við þurfum að laga,“ sagði Kristinn aðspurður hvað það hefði verið sem fór með leikinn fyrir Eyjamenn, blaðamaður nefndi einnig að liðið hafi einungis skorað tvö mörk á síðustu 15 mínútunum.

„Það sem við vorum að gera vel í fyrri hálfleik var að við héldum góðu tempói og hreyfðum þessa vörn þeirra, í seinni hálfleik verðum við fullstaðir og fastir í því að gera sömu hlutina aftur og aftur. Það er óðagot á okkur á tímabili, sérstaklega þegar við erum að missa niður forystuna, það kostar okkur mjög mikið á móti svona góðu liði. Það eru hlutir sem við verðum virkilega að laga og vonandi tekst okkur að gera það.“

Leikmenn ÍBV hafa fundið Kára Kristján Kristjánsson vel á línunni í undanförnum leikjum en það gekk ekki vel í dag.

„Að sama skapi skapast færi í kringum línumennina okkar, við nýttum okkur það vel í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik áttum við í erfiðleikum með að hreyfa boltann og þar af leiðandi verður þetta þyngra hjá okkur.“

65% skota ÍBV koma utan af velli í fyrri hálfleik, náðu gestirnir að loka vel á það á lokakaflanum?

„Þeir náðu fyrst og fremst að loka á okkar flæði, við náðum ekki að koma okkur í flæði. Við opnuðum vörnina að vissu leyti eins og við vildum í nokkur skipti en náðum ekki að nýta okkur það. Þar af leiðandi var þetta erfitt.“

Tvö töp í röð, bæði á heimavelli, er einhver krísa í gangi?

„Nei, en við gerum samt kröfu á okkur og viljum vinna leiki, þetta er þannig íþrótt að þú lendir í mótbyr, það þýðir ekkert að grafa höfuðið og benda í allar áttir þrátt fyrir að við séum brjálaðir út í einhverja aðila í dag verðum við að einbeita okkur að því sem við höfum stjórn á.“

Enginn leikmaður eða þjálfari hjá ÍBV tók í höndina á dómurum leiksins eftir leik.

„Það er ekkert óeðlilegt miðað við þeirra frammistöðu í þessum leik, ég er búinn að segja það áður við þá sem sjá um dómaramálin hjá HSÍ að þetta par sé það allra slakasta sem boðið er upp á í þessari deild. Sérstaklega annar dómarinn sem er gjörsamlega út úr kú í dómgæslunni sinni, hann á þrjá, fjóra eða fimm dóma á okkur sem eru allir vafasamir á síðustu mínútunum. Ég get ekki gert meiri kröfur á þá en það, við vildum sýna fram á það að við værum ósáttir, við fórum fyrst og fremst í burtu til þess að vera ekki að segja einhverja djöfulsins vitleysu. Það var miklu frekar það heldur en það að vilja ekki klára einhver atriði með að taka í höndina á einhverjum, ég held að það sé minna atriði. Meira atriðið var það að við vildum ekki að menn myndu missa einhvern djöfulinn út úr sér sem myndi svo kosta þá í næstu leikjum.“

Landsleikjahlé er komið í gang hjá ÍBV núna, hvað ætlar liðið að gera í því?

„Við ætlum að vinna vel í því sem við höfum verið að gera, gera góðu hlutina betri og það þýðir ekkert að grafa höfuðið. Við erum búnir að tapa tveimur leikjum í röð með einu marki og erum drullufúlir yfir því, þetta eru bara hörkuleikir og það er ekkert rosalega mikið sem þarf til að vippa því yfir á réttan kjöl. Við þurfum að vera gagnrýnir á það hvað við getum gert betur og hjálpast að við það. Við komum fílefldir eftir pásu, við höfum lent í brekku áður með þetta lið og vitum hvernig á að vinna sig út úr því.“

Eyjamenn eiga þrjá leikmenn sem eru í íslenska landsliðinu fyrir leikina gegn Svíum á næstunni, Kristinn segir það fyrst og fremst vera viðurkenningu fyrir þá leikmenn sem hafa unnið vel fyrir sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert