Fjölmargir Íslendingar í þýska bikarnum

Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar í Kiel eru ríkjandi bikarmeistarar.
Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar í Kiel eru ríkjandi bikarmeistarar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Fjölmargir Íslendingar voru í eldlínunni er nýtt tímabil í þýska handboltanum hófst í dag á fyrstu umferðinni í bikarkeppninni en alls taka 64 lið þátt.

Gísli Þorgeir Kristjánsson og bikarmeistararnir í Kiel unnu 43:23-stórsigur á 3. deildarliði Baunatal en Gísli skoraði eitt mark í leiknum. Alfreð Gíslason stýrði Kiel til sigurs í bikarnum en hætti sem þjálfari liðsins eftir síðasta tímabil. Alexander Petersson skoraði sex mörk fyrir RN Löwen sem vann 46:23-sigur á Saarlouis sem einnig leikur í 3. deild. Þá gerði Bjarki Már Elísson fjögur mörk fyrir nýja lið sitt, Lemgo, gegn Hildesheim í 37:26-sigri.

Viggó Kristjánsson gekk til liðs við Leipzig í sumar og skoraði hann fjögur mörk í 40:27-sigri gegn Altenholz og þá skoraði Elvar Ásgeirsson eitt mark fyrir Stuttgart í 29:24-sigri á Coburg.

Oddur Gretarsson var markahæstur með níu mörk í 36:28-tapi Balingen gegn Wetzlar og þá tapaði Krefeld, sem Arnar Gunnarsson þjálfar, 35:22-gegn Füchse Berlín. Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar lið Erlangen sem vann 30:23-sigur á Eisenach til að komast í næstu umferð.

Þá vann lið Ragnars Jóhannessonar og Arnórs Þórs Gunnarssonar, Bergischer, 37:23 gegn Pforzheim þar sem Ragnar var markahæstur með 8 mörk og Arnór skoraði 3. Ragnar kom til Bergischer frá Hüttenberg í sumar.

Markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson og félagar í Hamburg töpuðu naumlega gegn Hagen, 30:29. Hannes Jón Jónsson þjálfari lið Bietigheim sem vann 28:27-sigur á Nieder-Roden og Sigtryggur Daði Rúnarsson leikur með Lübeck-Schwartau sem vann 25:20-útisigur gegn Gummersbach.

Sigurliðin verða aftur á ferðinni strax á morgun þegar 2. umferð keppninnar er leikin.

Bjarki Már Elísson spilaði með nýja liði sínu Lemgo í …
Bjarki Már Elísson spilaði með nýja liði sínu Lemgo í dag. Ljósmynd/Uros Hocevar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert