Einhverjir leikmenn hafa brotnað

Einar Ingi Hrafnsson og kár í slaginn gegn Val.
Einar Ingi Hrafnsson og kár í slaginn gegn Val. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Stemningin er virkilega góð og menn eru mjög spenntir fyrir því að byrja úrslitakeppnina. Við erum búnir að bíða eftir þessu allt tímabilið," sagði Einar Ingi Hrafnsson, línumaður Aftureldingar, í samtali við mbl.is fyrir úrslitakeppnina í handboltanum sem fer af stað á morgun. 

Afturelding mætir Val í átta liða úrslitunum og fer fyrsti leikurinn fram á útivelli annað kvöld. Aftureldingu hefur vegnað vel á móti Val á leiktíðinni og tekið þrjú stig úr tveimur leikjum. 

„Möguleikarnir eru fínir ef við gerum það sem við viljum gera. Við gerum okkur grein fyrir því að við erum að fara að mæta langbestu vörn deildarinnar og Danni er búinn að vera fáránlega góður í markinu og hann verður bara betri. Við þurfum að leysa ákveðna hluti í sóknarleiknum okkar svo þetta gangi.

Það verður örugglega meiri harka og dómararnir leyfa eflaust aðeins meira í úrslitakeppninni. Það verður gaman að fá að slást við þá. Valsararnir eru með þrjá varnarsérfræðinga sem kunna að berja frá sér og við verðum að standa á móti því," sagði Einar um sterkt lið Vals, áður en hann hélt áfram. 

„Þeir eru búnir að berja vel á liðum í úrslitakeppninni og einhverjir leikmenn hafa brotnað undan því. Við erum að undirbúa okkur í það að standa á móti því. Við höfum verið að æfa allt aukalega svo við verðum í toppstandi þegar við mætum til leiks," sagði Einar.

Hann staðfesti að Arnór Freyr Stefánsson, markmaður liðsins væri frá keppni vegna meiðsla og svo væri spurningamerki með Birki Benediktsson, einn besta varnarmann liðsins og skyttu. 

„Arnór markmaður er ekki heill og það er áfall fyrir okkur. Nárinn er svo að stríða Birki. Arnór verður ekki með og Birkir er að keppa við klukkuna," sagði Einar Ingi Hrafnsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert