Þessi viðtöl eru oft með klisjur

Kristján Orri Jóhannesson, ÍR, er spenntur fyrir einvígi við Selfoss.
Kristján Orri Jóhannesson, ÍR, er spenntur fyrir einvígi við Selfoss. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Það er mjög mikill spenningur. Við getum ekki beðið og það er búið að vera of löng pása út af landsleikjunum og það er mikil eftirvænting. Við verðum 100 prósent klárir," sagði Kristján Orri Jóhannsson, leikmaður ÍR í samtali við mbl.is fyrir átta liða úrslit Íslandsmótsins í handbolta. 

ÍR hafnaði í sjöunda sæti Olísdeildarinnar og mætir því Selfossi í átta liða úrslitum. Selfoss hafnaði í öðru sæti og hefur verið eitt allra besta lið landsins síðustu tvö ár. 

„Flestir spá eflaust Selfossi sigri í þessu, en við höfum óbilandi trú á okkur. Ef við erum rétt stilltir þá getum við unnið öll lið í deildinni," sagði Kristján og bætti svo við klisjurnar þyrftu að vera í lagi. 

„Þessi viðtöl eru oft með einhverjar klisjur en þær eiga við núna. Ef við erum með þétta vörn getur Stephen (Nielsen) tekið bolta fyrir aftan okkur og við erum með hraða menn í sókninni. Ef við höldum aga í sóknarleiknum getum við unnið þá."

Allir leikmenn ÍR eru heilir heilsu en Bergvin Þór Gíslason verður ekki með í fyrsta leik, þar sem hann tekur út leikbann. „Það eru allir klárir, nema Bergvin sem er í banni. Það er það eina sem mun vanta í okkar lið. Við erum spenntir,“ sagði Kristján. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert