Óraunhæft að tala um 50/50 einvígi

Ásgeir Örn Hallgrímsson er í klár í slaginn gegn Stjörnunni.
Ásgeir Örn Hallgrímsson er í klár í slaginn gegn Stjörnunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við ætlum að vinna Stjörnuna, það er engin spurning," sagði ákveðinn Ásgeir Örn Hallgrímsson, leikmaður Hauka, í samtali við mbl.is fyrir einvígi liðsins við Stjörnuna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta. 

Fyrsti leikur liðanna fer fram á Ásvöllum á laugardaginn klukkan 14.00 en sextán stig skildu liðin að í deildinni í vetur.

Ásgeir segir Haukana koma kokhrausta í einvígið, enda nýkrýndir deildarmeistarar að spila við liðið sem endaði í áttunda sæti. 

„Það er óraunhæft að tala um 50/50 einvígi þegar deildarmeistararnir eru að spila við liðið sem endaði í áttunda sæti. Þetta verður samt ekki auðvelt. Þetta eru erfiðir leikir sem við verðum að taka alvarlega."

Haukar lentu í miklum erfiðleikum með Stjörnuna er liðin mættust í lok febrúar í deildinni. Að lokum höfðu Haukar þó betur, 29:28. Ásgeir man vel eftir því, en hann átti sjálfur erfitt kvöld. 

„Ég man vel eftir því. Það var sennilega lélegasti leikurinn minn á tímabilinu. Þeir voru góðir og spiluðu þétta vörn og voru skynsamir í sóknarleiknum. Þeir spiluðu 7 á 6 og gerðu það vel. Við höfum ekki efni á neinu vanmati. Þetta voru erfiðir leikir í vetur og við verðum að vera á tánum."

Ásgeir er sáttur við vaxandi spilamennsku sína eftir því sem liðið hefur á tímabilið. „Þetta er farið að ganga betur. Maður er kominn í taktinn og farinn að venjast þessu og læra inn á deildina. Þetta er búið að vera betra," sagði Ásgeir Örn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert