Núna er kannski kominn tími á okkur

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Thorir O. Tryggvason.

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, er spenntur fyrir því að mæta deildarmeisturum Hauka í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta.

Fyrsti leikurinn fer fram í Schenker-höllinni í Hafnarfirði klukkan 14.00 á laugardaginn. Stjarnan hafnaði í áttunda sætinu í vetur með 18 stig, sextán stigum minna en Hafnarfjarðarliðið.

Þjálfarinn staðfesti að Egill Magnússon verði ekkert með Stjörnunni í úrslitakeppninni vegna meiðsla og svo hefur Bjarki Már Gunnarsson einnig verið að glíma við meiðsli. 

„Stemningin hjá okkur er ágæt. Við erum ánægðir að fá að vera með í úrslitakeppninni. Við höfum reynt að hvíla menn sem hafa verið lemstraðir, svo við fáum sem mest út úr þeim þegar þetta byrjar á laugardaginn.

Egill fór í aðgerð og verður ekkert meira með. Bjarki hefur hvílt síðan við spiluðum á móti ÍR og mun væntanlega koma inn á æfingu tveimur dögum fyrir leik. Hann verður með en það er bara spurning hversu góður hann verður," sagði Rúnar. 

Haukar unnu Stjörnuna tvisvar í deildinni í vetur. Stjarnan átti hins vegar fína möguleika á sigri, sérstaklega á heimavelli sínum, en Haukar unnu að lokum 29:28. 

Mörk Egils verða að dreifast á liðið

„Við gáfum þeim tvo hörkuleiki í vetur en þá var Egill með hátt í 20 mörk fyrir okkur. Það vantar þau í þessa leiki. Við áttum góða kafla en við unnum ekki leikina. Núna er kannski kominn tími á okkur. Mörkin verða að dreifast á allt liðið, einn maður getur ekki tekið eins mörg skot og Egill tekur."

Rúnar gat ekki nefnt sérstaka veikleika í liði deildarmeistaranna og veit að mjög erfitt verkefni er fram undan. 

„Haukar eru með góðan mannskap og eru þéttir fyrir. Þeir hafa bætt í eftir því sem liðið hefur á tímabilið og þeir voru mjög sterkir á lokakaflanum. Menn voru að tala um að þeir ættu erfiðasta prógramið eftir af toppliðunum þegar skammt var eftir og þeir voru samt bestir og kláruðu þetta með sæmd," sagði Rúnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert