Þjálfarasætið hjá Noregi er ískalt

Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni á EM í Frakklandi.
Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni á EM í Frakklandi. AFP

„Hann (Þórir Hergeirsson) má starfa eins lengi og honum sýnist,“ segir Kåre Geir Lio, formaður Handknattleikssambands Noregs, en samningur Þóris rennur út árið 2020. 

Norska blaðið Aftenposten hefur þetta eftir formanninum en samkvæmt blaðinu stendur Þóri til boða að skrifa undir nýjan samning sem myndi þá gilda til ársins 2025. Til að setja hlutina í samhengi þá gæti hann átt eftir að fara tvívegis með norska liðið á Ólympíuleika á samningstímanum ef af verður, 2020 og 2024. 

Fari svo að Þórir samþykki samninginn sem honum stendur til boða, og myndi starfa út samningstímann, þá yrði hann landsliðsþjálfari í sextán ár og samtals í 24 ár því hann var áður aðstoðarþjálfari landsliðsins þegar Marit Breivik stýrði liðinu. 

Lio sparar ekki lofið til handa Selfyssingnum. „Þórir horfir alltaf til þess að allir angar starfsins séu faglegir. Hann hefur byggt upp sérþekkingu og leitast ávallt við að bæta sig. Auk þess er hann frábær persóna.“

Stundum er talað um í íþróttunum að þjálfarasæti séu heit og þegar illa gangi hitni undir þjálfurum. Af ummælum Lio má ráða að sæti Þóris sé ískalt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert