Ísland getur mætt Þóri í HM-umspili

Þórey Rósa Stefánsdóttir, Thea Imani Sturludóttir, Guðný Jenny Ásmundsdóttir, Ester …
Þórey Rósa Stefánsdóttir, Thea Imani Sturludóttir, Guðný Jenny Ásmundsdóttir, Ester Óskarsdóttir, Helena Rut Örvarsdóttir og Martha Hermannsdóttir, landsliðskonur í handknattleik, fagna sigri í undankeppni HM á dögunum. Þeirra bíður erfiður andstæðingur í HM-umspilinu en dregið verður í umspilið á sunnudaginn. Ljósmynd/Robert Spasovski

Eftir að milliriðlakeppni Evrópumóts kvenna í handknattleik lauk í kvöld er ljóst hvaða níu liðum íslenska landsliðið getur dregist á móti í vor í leikjum um farseðilinn á heimsmeistaramótið sem fram fer í Japan undir lok næsta árs. Meðal þeirra eru eru Norðurlandaþjóðirnar þrjár, Danmörk, Svíþjóð og Noregur, en Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson er landsliðsþjálfari Noregs. 

Dregið verður á sunnudaginn áður en leikið verður til verðlauna á Evrópumótinu.

Í efri styrkleikaflokki verða landslið eftirtalinna þjóða: Svíþjóð, Noregur, Danmörk, Svartfjallaland, Serbía, Ungverjaland, Þýskaland, Spánn og Slóvenía.

Í neðri styrkleikaflokknum verða auk Íslands: Pólland, Króatía, Tékkland, Austurríki, Hvíta-Rússland, Makedónía, Sviss og Slóvakía.

Umspilsleikirnir fara fram í lok maí og byrjun júní og ráða samanlögð úrslit hverrar rimmu hvort liðið tryggir sér keppnisrétt á HM.

Heimsmeistarar Frakka, Hollendingar, Rúmenar og Rússar þurfa ekki að taka þátt í umspilsleikjum fyrir heimsmeistaramótið en alls verða 13 Evrópuþjóðir á mótinu sem hefst í Japan 29. nóvember á næsta ári.

Íslenska kvennalandsliðið hefur einu sinni tekið þátt í lokakeppni HM, árið 2011, þegar mótið var haldið í Brasilíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert