Bjarki sá fimmti hjá Lemgo

Bjarki Már Elísson
Bjarki Már Elísson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarki Már Elísson verður leikmaður þýska handknattleiksfélagsins Lemgo frá og með næsta sumri þegar samningur hans við Füchse Berlín rennur út.

Þessi 28 ára gamli, vinstri hornamaður kveðst hafa fengið gott tilboð frá liði sem geri honum kleift að njóta sín sem sá mikli markaskorari sem hann sé, og því yfirgefi hann höfuðborg Þýskalands eftir fjögurra ára dvöl þar.

Lemgo á sér langa sögu og liðið hefur notið góðs af íslenskum leikmönnum í gegnum tíðina. Félagið er með aðsetur í litlum háskólabæ, samnefndum félaginu, 70 kílómetra vestur af Hannover. Bestum árangri náði Lemgo á árunum í kringum síðustu aldamót en liðið varð Þýskalandsmeistari árin 1997 og 2003, og bikarmeistari árin 1995, 1997 og 2002. Þá vann liðið EHF-keppnina árin 2006 og 2010, og forvera hennar Evrópukeppni bikarhafa árið 1996.

Sigurður Sveinsson lék fyrstur Íslendinga með Lemgo árin 1983 til 1988, og varð markakóngur deildarinnar veturinn 1984-1985. Logi Geirsson kom næstur en Logi lék með Lemgo árin 2004-2010 og fékk tvo liðsfélaga úr íslenska landsliðinu. Ásgeir Örn Hallgrímsson lék nefnilega með Lemgo árin 2005-2007 og Vignir Svavarsson árin 2008 til 2010.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert