Stórsigur hjá Þóri og þeim norsku

Eftir stórsigur Þóris Hergeirssonar og norska landsliðsins á EM í …
Eftir stórsigur Þóris Hergeirssonar og norska landsliðsins á EM í kvöld lifir vonin ennþá um sæti í undanúrslitum á EM í Frakklandi. AFP

Norska landsliðið í handknattleik kvenna vann stórsigur á hollenska landsliðinu, 29:16, í milliriðlakeppni Evrópumótsins í Frakklandi í kvöld eftir að hafa verið átta mörkum yfir í hálfleik, 15:7. Þar með lifir vonin ennþá hjá norska landsliðinu, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, um sæti í undanúrslitum mótsins fyrir lokaumferð riðlakeppninnar sem fram fer á morgun.

Norðmenn mæta Spánverjum á morgun og þurfa á sigri að halda til að komast í undanúrslit. Einnig þarf norska liðið að treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum riðilsins. 

Eins og úrslitin gefa til kynna þá réð norska liðið lögum og lofum í leiknum við Hollendinga í kvöld. Norðmenn tóku völdin strax með því að skora fimm af fyrstu sex mörkum leiksins. Hollendingar voru aldrei með á nótunum. Sóknarleikurinn var slakur í leiknum og til að mynda tapaði liðið boltanum oftar en það skoraði.  Katrine Lunde fór á kostum í norska markinu og varði nærri helming þeirra skota sem komu á markið þann tíma sem hún stóð í markinu. 

Tíu leikmenn norska landsliðsins skoruðu mark í leiknum í kvöld. Þeirra markahæst var Marit Rosberg Jacobsen með fimm mörk. 

Rúmenía og Holland eru í efstu sætum milliriðils tvö fyrir lokaumferðina á morgun með sex stig hvort. Noregur, Þýskaland og Ungverjaland hafa fjögur stig hvort en Spánverjar eru án stiga. 

Á morgun mætir Noregur Spáni, Ungverjaland og Rúmenía eigast við og Holland og Þýskaland. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert