Rúmenar skrefi nær undanúrslitunum

Cristina Neagu fagnar einu af sjö mörkum sínum í kvöld.
Cristina Neagu fagnar einu af sjö mörkum sínum í kvöld. AFP

Rúmenar höfðu betur gegn Spánverjum 27:25 í milliriðli tvö á Evrópumóti kvenna í handknattleik í kvöld.

Spánverjar byrjuðu leikinn betur og voru yfir eftir fyrri hálfleikinn 12:10 en í síðari hálfleik náðu Rúmenar frumkvæðinu og sigur þeirra var ekki í hættu.

Rúmenar komust upp að hlið Hollendinga í milliriðlinum en báðar þjóðir hafa 6 stig. Þjóðverjar og Ungverjar eru með 4 stig, Norðmenn 2 og Spánverjar reka lestina án stiga.

Í kvöld mætast Holland og Noregur og verða Norðmenn, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, að vinna til að eiga möguleika á að komast í undanúrslitin.

Hin frábæra Christina Negau var markahæst í liði Rúmeníu með 7 mörk og Elena Pintea skoraði 6. Mireya Gonzalez var atkvæðamest í liði Spánverja með 6 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert