Varamennirnir gerðu útslagið

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, var að vonum sáttur með sigur …
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, var að vonum sáttur með sigur sinna manna í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var mikil rússíbanareið. Seinni hálfleikurinn var mjög svarthvítur og ég var við það að missa þolinmæðina gagnvart mínum mönnum,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við mbl.is eftir 31:27-sigur liðsins gegn Stjörnunni í 6. umferð Olísdeildar karla í handknattleik á Ásvöllum í kvöld.

„Við vorum að leka inn mörkum um miðjan seinni hálfleikinn og þá koma Andri Scheving og Darri Aronsson inn og þeir breyta algjörlega leiknum fyrir okkur. Við fáum á okkur þrjú mörk, eftir að þeir koma inn á, og það skóp þennan sigur hjá okkur í kvöld. Atli Báru var svo magnaður á lokaprettinum og hann dró vagninn fyrir okkur, sóknarlega, undir restina. Þegar ég tók leikhléið í stöðunni 19:23 reyndi ég að berja smá kjark í mína menn og fá þá til þess að hafa trú á verkefninu. Þetta leikhlé gerði samt sem áður ekki útslagið í leiknum, það var varnarleikurinn, eftir að Andri og Darri koma inn.

Haukaliðið hefur verið á miklu skriði að undanförnu en liðið hefur nú unnið fjóra leiki í röð í Olísdeildinni.

„Ég er mjög ánægður með októbermánuð í heild sinni. Við erum búnir að vera á góðu skriði og við höfum náð að knýja fram sigur í mikilvægum leikjum en það er enn þá hellingur sem við getum enn þá bætt. Það er hellingur sem við þurfum að laga, varnarlega og sóknarlega, og næstu dagar fara í það,“ sagði Gunnar Magnússon í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert