Taflan lýgur aldrei

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, var ósáttur með hrun sinna manna …
Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, var ósáttur með hrun sinna manna á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Eggert

„Ég er gríðarlega svekktur að hafa tapað þessum leik. Við spiluðum ekki vel í fyrri hálfleik en vorum komnir í of góða stöðu í seinni hálfleik til þess að tapa með fjórum mörkum hér í kvöld,“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 31:27-tap liðsins gegn Haukum í 6. umferð Olísdeildar karla í handknattleik á Ásvöllum í kvöld.

„Mér fannst ótrúlegt að við værum enn þá inn í leiknum eftir fyrri hálfleikinn og Sveinbjörn markmaður hélt okkur algjörlega inni í leiknum. Við eigum svo mjög góðan kafla í upphafi seinni hálfleiks og náum fjögurra marka forskoti. Síðan fáum við á okkur tvö auðveld mörk og eftir það finnst mér við tapa hausnum. Hlutirnir eftir það gerðust of hratt og við einhvern veginn náðum aldrei takti í okkar leik. Þetta var of auðvelt fyrir Haukana, að ná yfirhöndinni. Við fórum að taka erfið skot og það fór illa í mína menn en þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða betur hvað gerist nákvæmlega.“

Stjarnan er í neðsta sæti deildarinnar með 2 stig en Rúnar segir samt sem áður vera batamerki á sínu liði og hann er sáttur með spilamennsku liðsins, heilt yfir, í síðustu leikjum Stjörnunnar.

„Taflan lýgur aldrei og svona er staðan á okkur í dag. Það eru hins vegar skýr batamerki á mínu liði og ég er ánægður með þróunina hjá leikmönnum mínum. Það er langt síðan við floppuðum algjörlega á vellinum og það er gott fyrir alla að fá smá pásu á þessum tímapunkti. Við munum nýta hana vel og koma tvíefldir til baka,“ sagði Rúnar Sigtryggsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert